Við samantekt á rekstrarsögu fjárlagaliðar 03 390 – Alþjóðleg þróunarsamvinna, áður Þróunarsamvinnustofnun Íslands, hefur nú komið í ljós að ársreikningar fjárlagaliðarins fyrir tímabilið frá og með 2015 til og með 2018 hafa ekki verið samþykktir af forstöðumanni. Fjárlagaliðurinn er í umsjá Utanríkisráðuneytis.

Málið vakti fyrst athygli okkar, þegar opinberum gögnum um rekstur Utanríkisráðuneytis var safnað saman í byrjun árs. Þá kom í ljós að á vefsvæðinu arsreikningar.rikisreikningur.is var einungis að finna ársreikninga fyrir þrjá af þeim átta fjárlagaliðum sem heyra beint undir Utanríkisráðuneyti vegna ársins 2018. Finna má fjárhagsupplýsingar vegna ársins 2018 í ársreikningum fyrir árið 2019 en það skilur eftir árið 2017 sem fjárhagsupplýsingar finnast þá ekki fyrir.

Samtökin sendu erindi til Utanríkisráðuneytis 13. janúar þar sem óskað var skýringa á því að ársreikninga fimm fjárlagaliða vantaði. Þetta eru; 03 190 Ýmis verkefni, 03 300 Sendiráð Íslands, 03 390 Alþjóðleg þróunarsamvinna, 03 401 Alþjóðastofnanir, og loks 03 611 Íslandsstofa.

Viðbrögð ráðuneytisins voru þau að svara ekki erindi samtakanna, þrátt fyrir ítrekanir. Var málinu því að endingu vísað til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sem hefur kvörtun Samtakanna nú til meðferðar.

Þann 5. febrúar sendu samtökin gagnabeiðni á Utanríkisráðuneyti þar sem óskað var eftir ársreikningum fjárlagaliðar 03 390 Alþjóðleg þróunarsamvinna fyrir tímabilið 2010 til 2018. Þessi beiðni tengist úttekt samtakanna á þessum fjárlagalið sérstaklega. Þeirri beiðni var svarað af ráðuneytinu í gær, 20. febrúar. Með svari ráðuneytisins bárust ársreikningar fjárlagaliðarins frá og með 2010 til og með 2015, ásamt 2017 og 2018. Ársreikning fjárlagaliðar 2016 vantaði en vera má að það hafi verið fyrir vangá þar sem ársreikningur annars fjárlagaliðar (03 391) fyrir árið 2016 fylgdi með. Í svari ráðuneytisins er tekið fram að undirrituð eintök vegna áranna 2016-2018 sé ,,ekki að finna” í ráðuneytinu. Við fyrstu yfirferð á gögnunum kom svo í ljós að ársreikningur vegna ársins 2015 var einnig óundirritaður eins og fyrr segir.

Samtökin munu fylgja þessu máli eftir. Fylgjast má með fréttum af því hér á vef Samtakanna.

Starfsemi Samtaka skattgreiðenda er rekin fyrir mánaðarlega styrki almennings. Ef þú vilt koma í hóp velgjörðarmanna okkar, er hægt að styrkja samtökin hérna eða senda okkur póst til að fá nánari kynningu á starfseminni á upplysingar@skattgreidendur.is