Undanfarnar vikur hafa verið fluttar fréttir af bandarísku þróunarsavinnustofnuninni (USAID). USAID hóf göngu sína árið 1961, í tíð John F. Kennedy forseta. Undir hana voru sameinaðar margar stofnanir sem áður höfðu sinnt alþjóðlegri þróunaraðstoð.
USAID sætti nýverið úttekt vinnuhóps um aðhald í ríkisfjármálum (DOGE), sem stýrt er af Elon Musk. Ef marka má fréttaflutning af málinu, þá hafa – á einungis nokkrum dögum eftir að könnun DOGE hófst – komið fram upplýsingar um alvarlega sóun, fjársvik og misnotkun á skattfé bandarísks almennings í tengslum við starfsemi stofnunarinnar. USAID er fyrirmynd samskonar stofnana í mörgum vestrænum ríkjum. Hvort fjármál þessara systurstofnana séu jafn viðkvæm fyrir dagsljósi, eins og USAID virðist hafa verið, skal ósagt látið.
Hér á landi var lengi starfandi sérstök stofnun undir heitinu Þróunarsamvinnustofnun Íslands (e. Icelandic International Development Agency – ICEIDA) sem sett var á fót með lögum nr. 43/1981 sem byggði á lögum sem Alþingi setti árið 1971 um aðstoð við þróunarríkin. Starfsemi stofnunarinnar var svo flutt undir Utanríkisráðuneyti árið 2016, með lögum nr. 122/2015, sem kváðu á um breytingu á lögum nr. 121/2008 um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands.
Verkefnið hefur nú heitið Alþjóðleg þróunarsamvinna og fjárlaganúmerið 03 390. Rétt eins og í tilfelli USAID, hafa íslensk stjórnvöld fært mörg þróunarverkefni undir þennan eina fjárlagalið. Fjárveiting til verkefnisins nam um 13 milljörðum kr. árið 2023. Á tímabilinu frá og með 2018 til og með 2023 hefur fjárveiting numið 53 milljörðum samtals. Þetta er það mikið fé, að það þarf eiginlega að gera kraftaverk meðal erlendra velferðarhópa sem því er ætlað að þjóna, til að vera réttlætanlegt á sama tíma og ört fjölgar í íslenskum velferðarhópum sem hið opinbera skiptir sér ekki af í öðrum tilgangi en þeim að taka af þeim peninga og eigur.
Samtök skattgreiðanda hafa frá því um miðbik síðasta árs verið að skoða þennan fjárlagalið, eins og marga aðra. Samtökin hafa sent allnokkrar gagna- og upplýsingabeiðnir til Utanríkisráðuneytis vegna verkefnisins. Viðbrögð ráðuneytisins voru framan af þau að svara engum erindum. Það breyttist nýverið eftir athugasemd Ríkisendurskoðanda sem hann gerði í kjölfar ábendingar Samtakanna vegna upplýsinga er varða fjármál Aðalskrifstofu ráðuneytinsins (03 101). Áhugasamir geta fylgst með fréttum af verkefninu hér á vefsvæði Samtaka skattgreiðenda.
Starfsemi Samtaka skattgreiðenda er rekin fyrir mánaðarlega styrki almennings. Ef þú vilt koma í hóp velgjörðarmanna okkar, er hægt að styrkja samtökin hérna eða senda okkur póst til að fá nánari kynningu á starfseminni á upplysingar@skattgreidendur.is