Við samantekt Samtaka skattgreiðenda á rekstrarsögu Þjóðskrár Íslands nú á dögunum, kemur í ljós að yfirstjórn stofnunarinnar hefur á undanförnum árum hreinlega sleppt því að samþykkja og undirrita ársreikning stofnunarinnar.
Sex ársreikningar stofnunarinnar eru aðgengilegir á vefsvæðinu arsreikningar.rikisreikningur.is fyrir tímabilið frá og með 2018 til og með 2023. Á bls. tvö í ársreikningum er venjulega að finna skýrslu og áritun forstöðumanns, en í reikningum áranna 2018, 19 og 20 segir einfaldlega: ,,Samþykktur ársreikningur hefur ekki borist Fjársýslunni”. Þess ber að geta að við höfum enn ekki upplýsingar um hvernig skýrslugjöf stöfnunarinnar var háttað fyrir árið 2018..
Í heild nam fjárveiting til stofnunarinnar árin 2018-20 um 2,9 ma. kr. Sértekjur stofnunarinnar námu á sama tímabili 2,8 ma. kr. Samtals réði yfirstjórn stofnunarinnar því yfir fjárflæði upp á 5,7 ma. kr. á sama tíma og forstöðumaður stofnunarinnar skilaði hvorki skýrslu, né samþykkti ársreikning hennar.
Samtökin sendu að þessu tilefni erindi til Þjóðskrár Íslands. Við spurðum hvers vegna Fjársýslunni hefði ekki borist samþykktur ársreikningur þessi þrjú ár, og hvort einhver þessara ársreikninga hefði verið samþykktur af forstöðumanni á seinni stigum. Þá sendu samtökin einnig erindi Innviðaráðuneyti – sem er það ráðuneyti sem þessi stofnun heyrir undir. Við spurðum hvort stjórnendur ráðuneytisins hefðu verið meðvitaðir um það á sínum tíma að forstöðumaður Þjóðskrár samþykkti ekki ársreikninga, og hvers vegna slíkt hefði ekki áhrif á fjárveitingu til stofnunarinnar.
Starfsemi Samtaka skattgreiðenda er rekin fyrir mánaðarlega styrki almennings. Ef þú vilt koma í hóp velgjörðarmanna okkar, er hægt að styrkja samtökin hérna eða senda okkur póst til að fá nánari kynningu á starfseminni á upplysingar@skattgreidendur.is