Við skoðun Samtaka skattgreiðenda á ársreikningi Ríkisútvarpsins ohf. (hér eftir RÚV) kom í ljós að stofnunin hefur tekjur sem hún gerir ekki grein fyrir. Skekkjan er vel falin og ljóst er að tekjur sem nema yfir hundrað milljónum áttu ekki að fá að líta dagsins ljós.

Ársreikningur RÚV

Í ársreikningi RÚV fyrir árið 2023 er gerð grein fyrir tekjum RÚV með eftirfarandi hætti.

Í skýringu 4 í ársreikningnum er eftirfarandi sundurliðun á tekjum RÚV.

Talnaglöggir sjá strax að hér er skekkja upp á 75 m.kr. og 25 m.kr. fyrir þessi ár, auk þess sem ekki er gerð grein fyrir tekjum af samkeppnisrekstri sem ekki eru auglýsingar.

Fyrsta erindið til RÚV

Við sendum því eftirfarandi erindi á Björn Þór Hermannsson, fjármálastjóra RÚV.

Fyrirspurnin nú varðar tekjur RÚV. Í síðasta ársreikningi RÚV ohf. kemur fram að tekjur hafi numið 8.726 m.kr.

Í skýringu 4 kemur fram sundurliðun á þessum tekjum:
1) Tekjur af samkeppnisrekstri námu 2.941 m.kr., þar af auglýsingum 2.463 m.kr.
2) Tekjur af almannaþjónustu 5.710 m.kr.

Við óskum eftir sundurliðun á eftirtöldu fyrir árin 2022 og 2023:

1) Tekjum af samkeppnisrekstri sem ekki eru auglýsingatekjur.
2) Öðrum tekjum en tekjum af almannaþjónustu og samkeppnisrekstri, sem mér reiknast til að séu 75 m.kr. árið 2023 (26 m.kr. árið 2022).

fh. Samtaka skattgreiðenda,
Arnar Arinbjarnarson

Fyrsta svar RÚV

Björn Þór Hermansson svaraði fljótt og vel, og kunnum við honum bestu þakkir fyrir það. Nokkuð sem aðrar stofnanir mættu taka sér til fyrirmyndar. Svarið er eftirfarandi.

Sæll Arnar

Vísa til fyrirspurnar þinnar frá 7. febrúar sl. Í meðfylgjandi töflu má sjá nánari sundurliðun á tekjum RÚV fyrir árin 2022 og 2023.

  • Aðrar tekjur í samkeppnisrekstri voru um 5% af tekjum RÚV árin 2022 og 2023.
    • Fyrst og fremst er um að ræða leigutekjur af dreifikerfi og húsnæði RÚV sem eru um og yfir 200 m.kr. á ári eða í kringum helmingur annarra tekna.
    • Að frátöldum leigutekjum af dreifikerfi og húsnæði þá eru aðrar tekjur í samkeppnisrekstri talsvert sveiflukenndar frá einu ári til annars. Þar er um að ræða tekjur vegna útleigu á stúdíói ásamt vinnu, leigu á tækjabúnaði, sölu á safnaefni, útseldri vinnu o.fl. Hafa þarf í huga að í mörgum tilvikum fellur til kostnaður á móti s.s. vegna samframleiðslu eða í útseldri vinnu.
  • Aðrar tekjur en af almannaþjónustu og samkeppnisrekstri námu um 25 m.kr. árið 2022 og 75 m.kr. árið 2023 eins og þú nefnir í póstinum. Þarna er að stærstum hluta um að ræða ýmiss konar tilfallandi styrki en á árinu 2023 voru einnig tekjufærðar tjónsbætur sem ekki falla undir almannaþjónustu eða samkeppnisrekstur.

Annað erindið til RÚV

Sæll Björn Þór

Takk fyrir skjót greinargóð svör.

Ég óska núna eftir sundurliðun á öðrum tekjum en af almannaþjónustu og samkeppnisrekstri fyrir þessi ár, þ.e. þessum 25 mkr. og 75 mkr. þar sem nafn greiðanda kemur fram.

Bestu kveðjur,
Arnar

Annað svar RÚV

Þann 14. febrúar 2025 svaraði fjármálastjórinn með þessum hætti.

Sæll Arnar

Við getum ekki sent slíka sundurliðun niður á einstakar færslur og greiðendur úr bókhaldinu hjá okkur.

Lög um Ríkisútvarpið

Það er áhugavert að skoða þróun laga um Ríkisútvarpið nr. 23/2013 um aðrar tekjur. Þegar lögin voru sett árið 2013 hljómaði 14. grein laganna svona:

Þarna þurfti löggjafarvaldið, kjörnir fulltrúar almennings, að ákveða ef RÚV fengi að hafa aðrar tekjur nema með sérstakri ákvörðun. En árið 2018 breyttist þetta án nokkurra skýringa í gagnagrunni Alþingis og þau lög eru nú í gildi.

Í stað þess að Alþingi þurfi að ákveða hvaða aðrar tekjur RÚV fái að hafa, ákvað Alþingi að hafa ekkert með það lengur að segja.

Þróunin frá því að lögunum var breytt

Þegar skoðað er lengra tímabil, eða frá því að lögunum var breytt, kemur í ljós að óútskýrðar tekjur nema um 135 m.kr. á tímabilinu 2021-2023. Samtökin sendu sérstaka fyrirspurn laugardaginn 15. febrúar um skekkjuna árið 2020, en mögulega skýrist sú skekkja af samlagningarvillu.

Kæra til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál

Samtök skattgreiðenda kærðu þá ákvörðun RÚV að veita ekki upplýsingar um þá styrki sem stofnunin hefur fengið til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál sunnudaginn 16. febrúar 2025 og bíðum við nú viðbragða nefndarinnar.

Starfsemi Samtaka skattgreiðenda er rekin fyrir mánaðarlega styrki almennings. Ef þú vilt koma í hóp velgjörðarmanna okkar, er hægt að styrkja samtökin hérna eða senda okkur póst til að fá nánari kynningu á starfseminni á upplysingar@skattgreidendur.is