Í grein sem birtist á visir.is 18. janúar er rætt við formann Félags prófessora við ríkisháskóla. Í greininni kemur fram að prófessorar íhugi nú verkfall enda sé allt að 40% akademísks starfsfólks í kulnun eða komið langt á leið í kulnun. Athygli vekur að þetta er umtalsvert hærra hlutfall en þekkist t.d. á meðal starfsfólks í bandaríska hernum. Kulnunarfaraldurinn er settur í beint samhengi við opinberar fjárveitingar en fram kemur að starfsfólk háskólanna sé orðið langþreytt á endalausum niðurskurði undanfarinna ára og sé því hreinlega að þrotum komið.
Línuritið hér fyrir neðan sýnir hvernig tekjur Háskóla Íslands þróast á tímabilinu 2017 til 2023 (í milljónum króna) og hvernig tekjurnar aukast samfellt allt tímabilið, úr 19,8 milljörðum króna árið 2017 í 35,2 milljarða árið 2023:
Næsta línurit sýnir þróun í fjölda stöðugilda hjá Háskóla Íslands. Fjöldinn fer úr 1.473 stöðugildum, árið 2017, í 1.821 stöðugildi árið 2022:
Hér er þá ótalin þróun í fjölda verktaka sem vinna fyrir Háskóla Íslands en Samtökin vinna um þessar mundir að því að afla upplýsinga um það. Telja verður líklegt að fjöldi verktaka sem starfa fyrir Háskóla Íslands fari einnig ört vaxandi á tímabilinu.Að endingu er hér línurit sem sýnir þróun tekna eftir tekjuþáttum. Hér vekur athygli að tekjuþættirnir Fjárveiting ársins og Framlög og ýmsar tekjur hækka báðir. Það sama verður ekki sagt um tekjuþáttinn Seld vara og þjónusta. Þessi tekjuþáttur vex ekkert á tímabilinu þrátt fyrir mikla fjölgun starfsfólks. Þó er þetta einmitt sá tekjuþáttur sem ætla mætti að sé hvað háðastur beinu vinnuframlagi af öllum tekjuþáttunum þrem, þ.e.a.s. tekna er aflað þegar og ef vinna er unnin.
Hér fer auðvitað engan veginn saman hljóð og mynd.
Starfsemi Samtaka skattgreiðenda er rekin fyrir mánaðarlega styrki almennings. Ef þú vilt koma í hóp velgjörðarmanna okkar, er hægt að styrkja samtökin hérna eða senda okkur póst til að fá nánari kynningu á starfseminni á upplysingar@skattgreidendur.is