Samtök skattgreiðenda hafa frá því í byrjun nóvember á síðasta ári unnið að því að afla gagna um leigusamninga sem Ríkið hefur gert vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd frá árinu 2019. Tvær stofnanir hafa séð um gerð slíkra samninga, annars vegar Útlendingastofnun, sem sá um þessa samninga fram til ársins 2023, og hins vegar Framkvæmdasýslan sem hefur séð um þessa samninga frá árinu 2023.
Það er gaman frá því að segja að Útlendingastofnun hefur brugðist vel við þessu, og fleiri erindum Samtakanna, og hefur í raun verið til fyrirmyndar í samskiptum. Útlendingastofnun fékk erindi frá Samtökunum, með ósk um afrit húsaleigusamninga, þann 6. febrúar sem stofnunin svaraði einungis átta dögum síðar þar sem afhent voru afrit átta leigusamninga.
Samtökin hafa mætt allt öðru viðmóti frá Framkvæmdasýslunni sem fékk samskonar beiðni 23. janúar. Stofnunin hafnar beiðninni í svari til Samtakanna þann 18. febrúar. Synjunarrök stofnunarinnar eru þau að um ,,viðkvæman hóp íbúa að ræða” og að ,,afar tímafrekt væri að safna saman og yfirstrika staðsetningu þess leigða”. Þess má geta að um 65 samninga er að ræða.
Þessu svöruðu Samtökin daginn eftir með því að vísa synjunarrökum stofnunarinnar á bug og skora á stofnunina að senda umbeðin gögn án tafar og án yfirstrikana. Framkvæmdasýslan hefur ekki brugðist við því erindi. Þetta túlka Samtökin sem synjun á beiðni um afhendingu umbeðinna gagna og hafa nú vísað málinu til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Starfsemi Samtaka skattgreiðenda er rekin fyrir mánaðarlega styrki almennings. Ef þú vilt koma í hóp velgjörðarmanna okkar, er hægt að styrkja samtökin hérna eða senda okkur póst til að fá nánari kynningu á starfseminni á upplysingar@skattgreidendur.is