Samtök skattgreiðenda hafa sent Ríkisendurskoðanda eftirfarandi erindi:
,,Góðan dag,
Erindið nú varðar ósamþykkta ársreikninga fjárlagaliðar 03 390 Alþjóðleg Þróunarsamvinna, áður Þróunarsamvinnustofnun Íslands.
Við samantekt Samtaka skattgreiðenda á rekstrarsögu Alþjóðlegrar þróunarsamvinnnu hefur komið í ljós að Utanríkisráðuneyti hefur ekki í fórum sínum ársreikninga, samþykkta af forstöðumanni fjárlagaliðar 03 390, vegna áranna 2015 til og með 2018. Skýrsluskil ráðuneytisins vegna fjárlagaliðarins vöktu fyrst athygli Samtakanna í byrjun árs þegar í ljós kom að ráðuneytið hefur ekki skilað ársreikningum fyrir fimm af átta fjárlaliðum inn á vefsvæðið arsreikningar.rikisreikningur.is fyrir árið 2018.
Í kjölfar erindis Samtakanna til Utanríkisráðuneytis, fengust afhentir ársreikningar fjárlagaliðar 03 390 frá og með árinu 2010 til og með ársins 2018. Tekið er fram í svari ráðuneytisins að undirritaða ársreikninga verkefnisins sé ,,ekki að finna“ fyrir tímabilið frá og með 2016 til og með 2018. Við skoðun á efninu kom svo í ljós að ársreikningur vegna ársins 2015 var einnig óundirritaður.
Samtökin fara þess á leit við Ríkisendurskoðanda að kannað verði hvort þessir ársreikningar hafi verið samþykktir af forstöðumanni á sínum tíma og staðfest eintak glatast, eða hvort því hafi einfaldlega verið sleppt að staðfesta umrædda ársreikninga. Hafi því einfaldlega verið sleppt, er óskað eftir því sérstaklega að Ríkisendurskoðandi kanni hvort þessar upplýsingar hafi verið á vitorði æðstu stjórnenda þess ráðuneytis sem stofnunin heyrir undir. Loks er óskað eftir því að kannað verði hvort það standist lög að stjórnvöld láti skattgreiðendur standa straum af rekstrarkostnaði stofnana sem skila ekki ársreikningum staðfestum af forstöðumanni.
Vinsamlegast staðfestið móttöku erindisins.
Virðingarfyllst,
Róbert Bragason
F.h. Samtaka skattgreiðenda”
Starfsemi Samtaka skattgreiðenda er rekin fyrir mánaðarlega styrki almennings. Ef þú vilt koma í hóp velgjörðarmanna okkar, er hægt að styrkja samtökin hérna eða senda okkur póst til að fá nánari kynningu á starfseminni á upplysingar@skattgreidendur.is