Með erindi Samtaka skattgreiðenda til Utanríkisráðuneytis, dags 28. nóvember 2024, óskuðu Samtökin eftir hreyfingaryfirlitum þriggja gjaldalykla úr bókhaldi fjárlagaliðar 03 390 Alþjóðleg þróunarsamvinna – ICEIDA. Einn þessara gjaldalykla er 541 – Fundir, námskeið, risna. Óskað var eftir gögnum vegna tímabilsins 2019 til og með 2023.
125 dögum síðar, eða 2. apríl sl. fá Samtökin loks umbeðin gögn með tölvupósti frá ráðuneytinu. Í svari ráðuneytisins er gerður sá fyrirvari að meðfylgjandi hreyfingarlistar innihaldi ekki sundurliðun á tvenns konar kostnaði; greiðslum fyrir heilbrigðisþjónustu og greiðslum vegna skólasóknar barna útsendra starfsmanna.
Taflan sýnir samantekt á fyrirliggjandi upplýsingum. B dálkur sýnir bókfærðar fjárhæðir yfirlykilsins 541 – Fundir, námskeið, risna eins og þær eru skráðar í ársreikningi ICEIDA á tímabilinu. C dálkur sýnir heildarfjárhæð, þar af, sem ráðuneytið afhendir sundurliðanir fyrir. D dálkur sýnir heildarfjárhæð, þar af, sem ráðuneytið afhendir ekki sundurliðanir fyrir. Loks sýnir E dálkur hlutfall þess kostnaðar, af heild, sem stjórnendur ICEIDA telja óráðlegt að skattgreiðendur fái yfirlit yfir – dulkostnaðinn.
Það sem fyrst vekur athygli er auðvitað mikil aukning dulkostnaðar á tímabilinu, bæði í krónum talið og sem hlutfall af heild lykils 541 á tímabilinu. Þetta er ekki síst áhugavert í ljósi þess hver er starfsmannafjöldi ICEIDA í stöðugildum talið á sama tímabili. Ef við miðum við upplýsingar sem fram koma í ársreikningum ICEIDA, þá er fjöldi stöðugilda sagður vera 40 árið 2019 en 47 stöðugildi árið 2023. Það er fjölgun um 17% á sama tíma og krónutala dulkostnaðar hækkar um 157%. Þetta verður allt saman enn undarlegra ef miðað er við upplýsingar um fjölda stöðugilda sem stjórnendur ICEIDA veittu þegar lögð var fram fyrirspurn á alþingi um fjölda stöðugilda hjá Ríkinu veturinn 2022-23. Við það tilefni gáfu stjórnendur ICEIDA upp að fjöldi stöðugilda árið 2019 væri 41 og að árið 2022 væri hann kominn niður í 33 sem er lækkun um 20%.
Samtökin gerðu af þessu tilefni ítarlegri könnun á lykli 541. Lykillinn dregur samtölur af átta undirlyklum. Taflan sýnir Samantekt fyrir þessa lykla á tímabilinu 2016 til 2023 og árslokastöðu hvers þeirra.
Á undirlykilinn, 54120 Námskeiðs- og skólagjöld, bókast að meðaltali 82% alls þess kostnaðar sem safnast á yfirlykilinn 541 hjá ICEIDA. Þegar gögn frá ráðuneytinu eru sundurliðuð niður á áður nefnda átta undirlykla, sést að 99,5% dulkostnaðarins er bókaður á þennan eina lykil (54120). Þar að auki er þetta eini lykillinn, undir þessum yfirlykli, sem gæti átt eitthvað skylt við þá kostnaðarliði sem stjórnendur ICEIDA segja að réttlæti leyndarhyggju stofnunarinnar í þessu máli. Í næstu töflu reiknum við því krónutölu dulkostnaðar sem hlutfall af heildarkostnaði sem bókfærður er á undirlykilinn 54120.
Hér sést að veruleg aukning verður í viðskiptum ICEIDA, á þessu tímabili, sem stjórnendur stofnunarinnar telja varhugavert að upplýsa skattgreiðendur um. Árið 2019 telja stjórnendur sér fært að veita skattgreiðendum upplýsingar um 72 krónur af hverjum 100 sem varið er til námskeiðs- og skólagjalda. Árið 2021 þykir óvarlegt að upplýsa um meira en eina krónu af hverjum 100 sem varið er, og árin 2022 og -23 er svo komið að skattgreiðendur geta engar sundurliðanir fengið. ICEIDA eyðir tugum milljóna undir þessum eina bókhaldslykli, og ætlast til að skattgreiðendur treysti því bara að ráðstöfun fjárins sé í samræmi við lög og reglur – hjá stofnun sem getur ekki einu sinni gert grein fyrir fjölda starfsmanna sinna.
Hér má loks benda á það að í fyrirvara ICEIDA, sem settur var fram þegar gögnin voru afhent, er talað um að tvenns konar kostnaðartegundir skýri þá fjárhæð sem ekki fæst sundurliðun á; kostnaður vegna skólasóknar barna starfsmanna og kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu. Til þess að þetta geti verið satt og rétt, þyrfti kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu augljóslega að vera bókaður á lykilinn 54120 – Námskeiðs- og skólagjöld þar sem allan dulkostnaðinn má rekja til þessa eina lykils.
Samtökin hafa nú sent framhaldserindi til Utanríkisráðuneytis vegna málsins. Nú er óskað eftir upplýsingum um fjölda barna útsendra starfsmanna ár hvert á tímabilinu 2019 til 2023. Að auki er spurt hvers vegna kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu myndi vera bókaður sem Námskeiðs- og skólagjöld.
Starfsemi Samtaka skattgreiðenda er rekin fyrir mánaðarlega styrki almennings. Ef þú vilt koma í hóp velgjörðarmanna okkar, er hægt að styrkja samtökin hérna eða senda okkur póst til að fá nánari kynningu á starfseminni á upplysingar@skattgreidendur.is