Innviðaráðuneyti hefur nú svarað erindi Samtaka skattgreiðenda vegna ársreikninga Þjóðskrár Íslands sem ekki höfðu verið samþykktir af forstöðumanni stofnunarinnar. Í erindi samtakanna var spurt hvort stjórnendur ráðuneytisins væru meðvitaðir um að þremur ársreikningum stofnunarinnar hafi verið skilað án þess að þeir væru samþykktir af forstöðumanni, og hvort það hefði haft áhrif á fjárveitingu til stofnunarinnar.
Í svari ráðuneytisins kemur fram að stjórnendum þess hafi ekki verið kunnugt um að ársreikningar áranna 2018, -19, og -20 hefðu ekki verið samþykktir af forstöðumanni. Rétt eins og í nýlegu svari til Samtakanna frá Þjóðskrá Íslands er tekið fram að ástæðan kunni að tengjast deilum forstöðumanns við ráðuneytið um meðferð sértekna. Þá segir að þetta hafi ekki haft áhrif á fjárveitingu, og beinlínis sagt að ráðuneytið hafi ekki eftirlit með því hvort undirstofnanir þess skili ársreikningum eða ekki – það sé á ábyrgð Fjársýslu Ríkisins. Loks kemur fram að þáverandi forstöðumaður Þjóðskrár Íslands hafi látið af störfum í kjölfar málsins að eigin ósk.
Þetta dæmi sýnir að þó stofnanir heyri undir ákveðið ráðuneyti – í þessu tilviki Innviðaráðuneyti, þá virðist ráðuneytið ekki hafa nokkurt einasta eftirlit með með starfsemi sinna undirstofnana. Málið í heild sinni, er felur aftur á móti í sér sterka vísbendinga um að þær óheyrilegu fjárhæðir sem skattgreiðendur greiða ríkisstarfsmönnum í laun fyrir opinbera stjórnsýslu, skili sér ekki í formi virðisaukandi þjónustu á móti.
Starfsemi Samtaka skattgreiðenda er rekin fyrir mánaðarlega styrki almennings. Ef þú vilt koma í hóp velgjörðarmanna okkar, er hægt að styrkja samtökin hérna eða senda okkur póst til að fá nánari kynningu á starfseminni á upplysingar@skattgreidendur.is