Alþingi birtir mánaðarlega tölur um laun og aðrar aukagreiðslur allra þingmanna, nokkuð sem eðlilegt væri að allar opinberar stofnanir gerðu. Samtök skattgreiðenda fylgjast náið með launagreiðslum þingmanna og hafa m.a. reynt að fá sundurliðun á föstum starfskostnaði þingmanna án árangurs.
Ef marka má vef Alþingis sem sýnir laun og aðrar kostnaðargreiðslur fyrir maí hafa laun þingmanna tvöfaldast m.v. mánuðina á undan. Vel kann að vera að eðlileg skýring sé á þessu eða villa á vefsíðunni, en til að komast til botns í því hafa Samtök skattgreiðenda sent erindi á Alþingi þar sem skýringa er óskað.

*** Uppfært ***
Alþingi hefur svarað okkur og þar segir orðrétt: „Skýringin er sú að launin fóru óvart tvöfalt inn á vefinn.
Þetta verður leiðrétt í vikunni.“
Starfsemi Samtaka skattgreiðenda er rekin fyrir mánaðarlega styrki almennings. Ef þú vilt koma í hóp velgjörðarmanna okkar, er hægt að styrkja samtökin hérna eða senda okkur póst til að fá nánari kynningu á starfseminni á upplysingar@skattgreidendur.is