Samtök skattgreiðenda hafa sent erindi til Félags- og vinnumarkaðsráðuneytis varðandi misræmi milli bókhalds ráðuneytisins, annars vegar, og bókhalds undirstofnunar ráðuneytisins; Tryggingastofnunar Ríkisins hins vegar.

Misræmið kemur í ljós þegar skoðaðar eru tvær heimildir um sama gjaldaliðinn; Barnalífeyri, fyrir tímabilið 2004-2020. Annars vegar er um að ræða útgjöld vegna barnalífeyris, eins og þau eru bókuð í ríkisreikning, og hins vegar útgjöld vegna barnalífeyris skv. bókhaldi Tryggingastofnunar – sem Samtökin fengu upplýsingar um í kjölfar gagnabeiðnar.

Taflan sýnir samantekt á þessu. C dálkur sýnir bókfærð útgjöld skv. ríkisreikningi. D dálkur sýnir útgjöld skv. gögnum sem fengust frá TR fyrir sama tímabil, og E dálkur sýnir mismun á upphæðum.

Eins og sjá má virðast skattgreiðendur greiða Tryggingastofnun Ríkisins hærri fjárhæð til greiðslu barnalífeyris, en stofnunin síðan greiðir til rétthafa. Mismunurninn nemur hundruðum milljónum árlega eða samanlagt rétt rúmum sex milljörðum króna á tímabilinu sem hér er skoðað.

Í erindi Samtakanna er óskað eftir því að Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti veiti skýringar á þessu misræmi.

Starfsemi Samtaka skattgreiðenda er rekin fyrir mánaðarlega styrki almennings. Ef þú vilt koma í hóp velgjörðarmanna okkar, er hægt að styrkja samtökin hérna eða senda okkur póst til að fá nánari kynningu á starfseminni á upplysingar@skattgreidendur.is