Á dögunum sögðum við frá því að Samtök skattgreiðenda hefðu sent erindi til Þjóðskrár Íslands vegna þriggja ársreikninga stofnunarinnar sem reyndust ekki hafa verið samþykktir af forstöðumanni. Þetta eru ársreikningar vegna áranna 2018, -19 og -20.
Í erindinu spurðu Samtökin hvers vegna ársreikningar hefðu ekki verið samþykktir, hvort ársreikningar hefðu verið samþykktir af forstöðumanni á síðari stigum auk þess að spyrja hver var forstöðumaður stofnunarinnar þessi ár.
Þjóðskrá Íslands hefur nú svarað erindi Samtakanna. Í svari stofnunarinnar kemur fram að ársreikningar hafi ekki verið samþykktir af forstöðumanni, vegna deilna forstöðumannsins við æðri stjórnvaldsstofnanir, um það hvort tekjur, sem stofnunin innheimti vegna skráningar og mats fasteigna, ættu að renna til stofnunarinnar eða til ríkissjóðs. Þá kemur fram að reikningarnir hafi ekki verið samþykktir af forstöðumanni á seinni stigum.
Það sem vekur sérstaka athygli er að þáverandi forstöðumaður Þjóðskrár Íslands, og stjórnendur þess ráðuneytis sem stofnunin heyrir undir, skuli berjast á banaspjótum yfir því hvort tekjur af almannaþjónustu skuli enda í ríkissjóði beint, eða hafa viðkomu í bókhaldi stofnunarinnar fyrst. Þetta gæti verið vísbending um að forstjórar ríkisstofnana sem innheimta sértekjur, líti á einhverju leyti á þær tekjur sem sína séreign en eign skattgreiðenda. Þetta mál er skýr vísbending um alvarlegan viðhorfs- og stjórnunarvanda hjá Ríkinu. Það að svona vandamál geti viðgengist í þetta langan tíma bendir til þess að vandinn einskorðist ekki við þær stofnanir sem hér um ræðir.
Starfsemi Samtaka skattgreiðenda er rekin fyrir mánaðarlega styrki almennings. Ef þú vilt koma í hóp velgjörðarmanna okkar, er hægt að styrkja samtökin hérna eða senda okkur póst til að fá nánari kynningu á starfseminni á upplysingar@skattgreidendur.is