Í nýafstaðinni könnun Samtaka skattgreiðenda var kannað hve stór hluti úr kostnaðarbókhaldi ráðuneyta skilar sér inn á vefsvæðið opnirreikningar.is. Könnunin leiddi í ljós afar óvenjulegt skilahlutfall hjá Utanríkisráðuneyti árin 2022 og 2023.

Taflan sýnir skilahlutfalli ráðuneytisins (G dálkur):

Með erindi dags. 9. desember á síðast ári óskuðu Samtökin eftir skýringum á því frá ráðuneytinu hvernig ráðuneytinu tækist að eyða meiri peningum en það gerði grein fyrir undir öðrum rekstrarkostnaði í ársreikningi fyrir árin 2022 og 2023. Ráðuneytið hefur ekki svarað erindi Samtakanna þrátt fyrir ítrekanir. Því var ákveðið að vísa málinu til Ríkisendurskoðunar. Það gerðu Samtökin í dag með eftirfarandi erindi:

Góðan dag,

Erindið nú varðar misræmi í fjárhagsupplýsingum Utanríkisráðuneytis aðalskrifstofu (03 101). Annars vegar upplýsinga í ársreikningum ráðuneytisins, og hins vegar kostnaðarupplýsinga sem ráðuneytið gerir grein fyrir á vefsvæðinu opnirreikningar.is.

Samtök skattgreiðenda unnu á dögunum úttekt á skilahlutfalli fjárhagsgagna ráðuneytanna inn á vefsvæðinu opnirreikningar.is. Teknar voru saman upplýsingar úr ársreikningum ráðuneytanna, nánar til tekið bókfærðar fjárhæðir undir annar rekstrarkostnaður, og þær bornar saman við heildarfjárhæðir kostnaðar sem ráðuneytin höfðu gert grein fyrir á vefsvæðinu opnirreikningar.is fyrir samsvarandi tímabil. Samtökin líta svo á að ef engin kostnaður er undanskilinn vegna persónuverndarsjónarmiða eða öryggis- eða viðskiptahagsmuna, þá ætti hlutfall heildarfjárhæðar sem birtist á opnirreikningar.is frá ráðuneyti að vera 100% af heildarfjárhæð sem er bókuð undir öðrum rekstrarkostnaði í ársreikningi. Flest ráðuneyti eru með skilahlutfall vel undir 100%.

Í tilviki Aðalskrifstofu Utanríkisráðuneytis er þetta hlutfall á bilinu 29-76% á tímabilinu frá 2017 til 2021, sem er ekki svo frábrugðið öðrum ráðuneytum. Eftir það sjáum við aftur á móti afar óvenjulega þróun. Árið 2022 er skilahlutfall ráðuneytisins 278% og árið 2023 er skilahlutfallið 384%. Með öðrum orðum; ráðuneytið eyðir þremur krónum fyrir hverja eina sem það gerir grein fyrir í ársreikningi 2022, og fjórum krónum fyrir hverja eina sem það gerir grein fyrir í ársreikningi 2023. Samtökin sendu erindi til ráðuneytisins þann 9. desember á síðasta ári þar sem niðurstaða mælingar á skilahlutfalli ráðuneytisins var kynnt og óskað var skýringa á þessu óvenjulega skilahlutfalli. Ráðuneytið hefur ekki svarað erindi Samtakanna þrátt fyrir ítrekanir.

Samtökin líta svo á að það sé mjög alvarlegt að bókhald ríkisstofnana sé í þetta miklum ólestri. Ekki skal fullyrt hér að á endanum fáist ekki eðlilegar skýringar á þessu misræmi. Hins vegar vekur það ekki traust að ráðuneytið láti erindum um þetta ósvarað. Venjulegir skattgreiðendur myndu auðvitað lenda í skattrannsókn ef fjárfestingar- eða neysluútgjöld þeirra fara fjórfallt fram úr framtöldum tekjum þeirra. Því er óskað eftir að Ríkisendurskoðun taki þetta mál nú til skoðunar.

Vinsamlegast staðfestið móttöku erindisins.

Virðingarfyllst,
Róbert Bragason
F.h. Samtaka skattgreiðenda