Við könnun Samtaka skattgreiðenda á fjárreiðum Dómsmálaráðuneytis og Útlendingastofnunar hefur komið í ljós skekkja upp á rúmar þrjátíu milljónir króna. Um er að ræða fjárlagaliðinn 06-399 Umsækjendur um alþjóðlega vernd. Fjárlagaliðurinn er í umsjá Útlendingastofnunar en bæði Útlendingastofnun og fjárlagaliðurinn sem hér um ræðir, heyra beint undir Dómsmálaráðuneyti.
Til grundvallar lágu upplýsingar úr ársreikningum fjárlagaliðarins fyrir árin 2022-23, og kom skekkjan í ljós þegar borin voru saman hreyfingaryfirlit fimm rekstrarlykla við tölur í ársreikningum. Hreyfingaryfirlitin fengust í kjölfar gagnabeiðnar Samtakanna til Dómsmálaráðuneytis.
Taflan sýnir umrædda skekkju:
Í kjölfar samskipta Samtaka skattgreiðenda við Dómsmálaráðuneyti var ákveðið að vísa þessu máli til Ríkisendurskoðunar. Það gerðu Samtökin í dag með eftirfarandi erindi:
Góðan dag,
Erindið nú varðar misræmi í fjárhagsupplýsingum fjárlagaliðar 06 399 Umsækjendur um alþjóðlega vernd.
Þann 28. nóvember á síðasta ári sendu Samtök skattgreiðenda erindi til Dómsmálaráðuneytis og óskuðu eftir sundurliðun á fimm gjaldaliðum í ársreikningum fjárlagaliðarins fyrir árin 2022 og 2022. Þetta eru; Matvæli, Ferðir og uppihald, Sérfræðiþjónusta, Vistunargjöld og Leigugjöld. Þetta eru allt undirlyklar undir öðrum rekstrarkostnaði undir skýringarlið 5 í ársreikningum beggja ára. Þann 28. janúar barst loks svar frá ráðuneytinu hvar finna mátti í viðhengi tíu excel skjöl sem innihéldu umbeðnar sundurliðanir.
Við úrvinnslu á gögnunum kom í ljós að þegar heildarfjárhæðir yfirlita eru bornar saman við upplýsingar í ársreikningum fjárlagaliðarins, þá stemmir summa heildaryfirlits ekki við fjárhæð gjaldaliðar í ársreikningi í átta tilvikum af tíu. Summa allra fimm gjaldalykla í ársreikningi 2022 er kr. 1.354.614.664,- en summa yfirlita frá ráðuneytinu er kr. 1.353.259.413,-. Summa allra fimm gjaldalyka í ársreikningi 2023 er kr. 1.099.592.173,- en summa yfirlita frá ráðuneytinu er aftur á móti kr. 1.070.494.732,-. Með öðrum orðum; fjárhæðir sem sóttar eru í fjárhagsgrunn ráðuneytisins þegar ársreikningur er gerður – líklega skömmu eftir áramót 2023 – eru hærri en fjárhæðir sem fást þegar sama uppfletting er gerð í kjölfar gagnabeiðnar Samtakanna í lok árs 2024. Munurinn er samtals kr. 30.452.692,-
Með nýju erindi dags. 30. janúar til ráðuneytisins bentu Samtök skattgreiðenda á þetta misræmi og óskuðu skýringa á þessu misræmi. Af svari ráðuneytisins dags. 31. janúar má ráða að ekki standi til að veita skýringar á þessu misræmi.
Samtökin líta svo á að það sé mjög alvarlegt að bókhaldsupplýsingar ríkisstofnana breytist eftir því hvenær þeim er flett upp. Þá telja samtökin það ekki síður alvarlegt ef viðhorf stjórnenda ríkisstofnana telja slíkar uppákomur einfaldlega ekki koma sér við þegar á þetta er bent eða óskað er skýringa. Því er óskað eftir að Ríkisendurskoðandi taki þetta mál nú til skoðunar.
Vinsamlegast staðfestið móttöku erindisins.
Virðingarfyllst,
Róbert Bragason
F.h. Samtaka skattgreiðenda