Vefsvæðið opnirreikningar.is fór í loftið á miðju ári 2017. Í frétt sem birtist á vef Fjármála- og efnahagsráðuneytis það sama ár segir að ráðuneytið vinni að því að ,,auka aðgengi að fjárhagsupplýsingum ríkisins með því að gera reikninga úr bókhaldi ríkisins aðgengilega almenningi. Verkefnið [var] unnið í samræmi við fjármálastefnu fyrir árin 2017-2022, fjárlög fyrir árið 2017 og stefnuáætlun ríkisstjórnarinnar um að stíga markviss skref til þess að opna bókhald ríkisins.”

Samtök skattgreiðenda hafa nú lokið við samantekt á gagnaskilum ráðuneyta á tímabilinu 2017 til 2023. Til grundvallar liggja annars vegar; árlegar heildarfjárhæðir hvers ráðuneytis sem finna má á opnirreikningar.is, en hins vegar; heildarfjárhæðir sem finna má undir liðnum Annar rekstrarkostnaður í ársreikningum ráðuneytanna fyrir samsvarandi tímabil. 

Hvert ráðuneyti hefur tvær sjálfstæðar bókhaldseiningar sem það stjórnar alfarið sjálft. Annars vegar er um að ræða Aðalskrifstofu ráðuneytis sem í tilviki Forsætisráðuneytis hefur númerið 01-101, en í tilviki Mennta- og barnamálaráðuneytis er þetta númer 02-101 svo dæmi séu tekin. Öll ráðuneyti hafa svo í sinni umsjá sérstakan undirfjárlagalið sem er sjálfstæð bókhaldseining. Í tilviki Forsætisráðuneytis hefur þessi liður heitið Ýmis verkefni og númerið 01-190, og í tilviki Mennta- og barnamálaráðuneytis hefur liðurinn heitið Ýmis verkefni og númerið 02-999. 

Aðeins eitt ráðuneyti – Heilbrigðisráðuneyti – miðlar upplýsingum um kostnað, sem bókaður er á undirfjárlagaliðinn Ýmis verkefni, til vefsvæðisins opnirreikningar.is. Öll önnur ráðuneyti hafa einfaldlega sleppt því. 

Skilahlutfall – Aðalskrifstofur

Skilahlutfall – Aðalskrifstofur Taflan sýnir skilahlutfall allra aðalskrifstofa ráðuneytanna fyrir tímabilið 2017-2023 (G dálkur).

Einhverjir gætu horft til 94% skilahlutfalls árið 2023 og litið svo á að þetta sé til marks um mikla bætingu samanborið við árin á undan. Svo er hins vegar ekki. Þetta háa hlutfall skýrist að mestu af óeðlilega háu skilahlutfalli Utanríkisráðuneytis árin 2022 og 2023, þegar ráðuneytið gerir grein fyrir margfalt hærri kostnaði á opnirreikningar.is en það gerir grein fyrir í ársreikningi sínum. Skilahlutföll ráðuneytisins mælast tæplega 300% árið 2022 og tæplega 400% árið 2023. Þessu svipar til þess að framteljandi keypti sér fjórum sinnum verðmeiri fasteign en framtaldar tekjur segja til um að hann ætti að ráða við. Samtökin óskuðu skýringa á þessu í byrjun desember á síðasta ári og bíða enn eftir svari frá ráðuneytinu.

Skilahlutfall – Ýmis verkefni

Skilahlutfall – Ýmis verkefniTaflan sýnir skilahlutfall undirfjárlagaliðarins Ýmis verkefni undir öllum ráðuneytum fyrir tímabilið 2017-2023.

Skilahlutfall aðalskrifstofa og ýmissa verkefna samtals

Til að fá rétta mynd af skilahlutfalli ráðuneytanna er auðvitað rétt að leggja saman tölur aðalskrifstofa ráðuneyta og undirfjárlagaliðarins Ýmis verkefni. Þannig sjáum við hversu ,,opið” bókald ráðuneytanna raunverulega er. Taflan sýnir skilahlutfallið samanlagt:

Brellubókhald

Þetta er þá niðurstaðan eftir að íslenska ríkið stígur markviss skref til þess að opna bókhald ríkisins. Þegar ráðuneytisstjóri stendur frammi fyrir því að bóka kostnað, þá getur hann valið að láta kostnaðinn lenda á undirfjárlagalið – þar sem engum kostnaðarupplýsingum er miðlað inn á opnirreiknignar.is. Og jafnvel þó hann bóki kostnaðinn undir aðalskrifstofu, þá getur hann líka handvalið hvaða kostnaðarupplýsingum er miðlað inn á opnirreikningar.is og hverjum ekki. Niðurstaðan er að ráðuneytisstjórar velja að gera grein fyrir annari hverri krónu úr kostnaðarbókhaldi sínu, eða rétt tæplega það að meðaltali.

Hvernig myndu þessi sömu stjórnvöld taka á því ef skattgreiðandi ákveddi að telja bara fram aðra hverja krónu sem hann hefði í tekjur? Ætli hann gæti brugðist við skattrannsókn með því að segja vera að taka markviss skref í að auka hlutfall framtaldra tekna?

Starfsemi Samtaka skattgreiðenda er rekin fyrir mánaðarlega styrki almennings. Ef þú vilt koma í hóp velgjörðarmanna okkar, er hægt að styrkja samtökin hérna eða senda okkur póst til að fá nánari kynningu á starfseminni á upplysingar@skattgreidendur.is