Samtök skattgreiðenda hnjóta svo til daglega um sérkennilegar upplýsingar í ríkisbókhaldinu. Eitt er það sem veldur okkur sérstökum heilabrotum um þessar mundir; þróun greiðslna vegna viðbótargjalds í lífeyrissjóð.
Hér höfum við tekið saman heildarfjárhæð hvers árs sem bókuð er á lykilinn 5183 Viðbótargjald í lífeyrissjóð í ríkisreikningi (C dálkur). Það vakti athygli Samtakanna að sjá að greiðslur ríkisins lækka á tímabilinu 2004 til 2023 um 79% í krónum talið og án tillits til verðbólgu. Þess má geta að það er ekki á hverjum degi sem við sjáum kostnað lækka í ríkisbókhaldinu. Að öllu öðru jöfnu gæti þetta bent til þess að bjartsýni á framtíðina sé á hverfanda hveli meðal ríkisstarfsmanna, eða í öllu falli; að ríkisstarfsmenn hefðu minnkandi álit á hæfni stjórnenda í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins til að ávaxta fé sitt.
Samtökin ákváðu að kanna þetta frekar með því að skoða tölur úr ársskýrslum LSR. Teknar voru saman tölur um fjölda virkra sjóðfélaga í Séreign LSR (D dálkur). Í E dálk hefur bókfærð fjárhæð úr ríkisreikningi síðan verið umreiknuð í mánaðarlega fjárhæð per virkan sjóðfélaga. Hér vekur athygli að fjöldi virkra sjóðfélaga breytist svo til ekki neitt samanborið við lækkun á kostnaði ríkisins vegna viðbótargjalds í lífeyrissjóð, sjóðfélögum fækkar um 18% á tímabilinu.
Samtökin hafa sent erindi til Fjársýslu Ríkisins þar sem óskað er eftir því að stofnunin upplýsi hvað geti skýrt þessa einkennilegu þróun.
Starfsemi Samtaka skattgreiðenda er rekin fyrir mánaðarlega styrki almennings. Ef þú vilt koma í hóp velgjörðarmanna okkar, er hægt að styrkja samtökin hérna eða senda okkur póst til að fá nánari kynningu á starfseminni á upplysingar@skattgreidendur.is