Í frétt Samtaka skattgreiðenda þann 14. mars sl. sögðum við frá viðbrögðum Innviðaráðuneytis við erindi Samtakanna vegna Þjóðskrár. Í erindi Samtakanna var spurt hvort það hefði verið á vitorði stjórnenda ráðuneytisins að forstöðumaður Þjóðskrár hefði ekki afhent ársreikninga, staðfesta af forstöðumanni, þrjú ár í röð. Staðfest er í svari ráðuneytisins að þar á bæ höfðu stjórnendur ekki hugmynd um að forstöðumaðurinn hefði, vegna langvarandi ólundar, einfaldlega sleppt því að staðfesta ársreikninga stofnunarinnar sem hún þó réði sig til að stýra. Þá er því einnig haldið fram í svarinu að önnur stofnun – Fjársýsla Ríkisins – eigi að bera ábyrgð á þessu.

Samtökin brugðust við svari ráðuneytisins með því að senda erindi á Fjársýslu Ríkisins með afriti af samskiptum við ráðuneytið og setja fram eftirfarandi spurningar: 

  1. Er rétt að Fjársýsla ríkisins beri ábyrgð á því að forstöðumenn ríkisstofnana samþykki og undirriti ársreikninga?
  2. Ef já, hvaða heimildir hefur Fjársýslan til að bregðast við í svona málum?

Þessu erindi hefur Fjársýslustjóri nú svarað. Í svarinu er þvertekið fyrir það að þetta sé á ábyrgð Fjársýslunnar. Samkvæmt lögum um opinber fjármál beri ríkisaðila að skila undirrituðum ársreikningum til Fjársýslunnar, og skv. sömu lögum heyrir forstöðumaður undir stjórn síns fagráðuneytis. Viðkomandi fagráðuneyti ber ábyrgð á því að fylgja því eftir að forstöðumenn undirstofnana uppfylli sínar skyldur og að ein af þeim skyldum er að afhenda staðfestan ársreikning. Það eina sem Fjársýslan getur gert þegar þessi mál koma upp sé að upplýsa viðkomandi fagráðuneyti um að staðfestur ársreikningur hafi ekki borist.

Samtökin munu fylgja þessu máli eftir og hafa í þeim tilgangi sent framhaldserindi til Innviðaráðuneytis. Það sem helst vekur athygli á þessu stigi, er að samskipti við ráðuneytið benda ótvírætt til þess að stjórnendur Innviðaráðuneytis séu svo ómeðvitaðir um rekstur undirstofnana sinna, og eigin starfsskyldur, að erfitt er að sjá hvaða tilkall þetta fólk hefur til launa úr vösum skattgreiðenda.

Starfsemi Samtaka skattgreiðenda er rekin fyrir mánaðarlega styrki almennings. Ef þú vilt koma í hóp velgjörðarmanna okkar, er hægt að styrkja samtökin hérna eða senda okkur póst til að fá nánari kynningu á starfseminni á upplysingar@skattgreidendur.is