Flestir kannast við óbilgirni opinberra stofnana þegar borgararnir skila gögnum of seint til ríkis eða sveitarfélaga. Sektum og öðrum viðurlögum er hiklaust beitt við minnsta tilefni. En hvernig er lögbundnum skýrsluskilum opinberra stofnana háttað? Tökum tvö dæmi að handahófi.

Ríkislögmaður

Á vef Ríkislögmanns má sjá ársskýrslur sem stofnunin hefur birt opinberlega. Frá árinu 2013 hefur stofnunin aðeins birt ársskýrslur fyrir árin 2017 og 2020 og þannig sleppt því að birta 8 ársskýrslur. Ársskýrslur ríkislögmanns eru ekki langar, heldur örfáar blaðsíður með tölfræði um starfsemi stofnunarinnar. Nokkuð sem venjulegt fólk tæki aðeins fáeinar klukkustundir að taka saman.

Skv. reglugerð um ársskýrslur ríkislögmanns ber stofnuninni að senda ráðherra ársskýrslu sína og birta hana opinberlega. Þessar reglur hefur Ríkislögmaður brotið í 8 skipti af síðustu 10.

Ríkisendurskoðandi

Ríkisendurskoðandi hefur loksins birt ársskýrslu sína fyrir árið 2022. Ársskýrslan telur 6 blaðsíður í samanburði við um 60 blaðsíður undanfarin ár. Þó enn sé beðið eftir ársskýrslu ársins 2023 hefur hann birt aðfararorð að ársskýrslunni. Í svörum til Samtaka skattgreiðenda lofaði ríkisendurskoðandi að ársskýrslur hans fyrir árin 2022 og 2023 kæmu út í desember, sem stóðst ekki.

Flestar fréttir á vef Ríkisendurskoðanda snúa að vanskilum á ársreikningum ýmissa einkaaðila, t.a.m. stjórnmálaflokka. Þess ber að geta að Ríkisendurskoðandi sjálfur er ekki löggildur endurskoðandi, heldur stjórnmálafræðingur.

Slæleg vinnubrögð hjá einkafyrirtæki

Það er óþarfi að taka fram að ef framkvæmdastjórar einkafyrirtækja væru bæði að vanrækja lögbundna skýrslugjöf til eigenda og yfirvalda væru yfirvöld búin að loka starfseminni. Slíkt myndi þó varla gerast því sömu framkvæmdastjórar, sem ekki skila upplýsingum um reksturinn til eigenda, væru löngu búnir að þurfa að taka pokann sinn að kröfu eigenda. Slíku er ekki fyrir að fara hjá hinu opinbera.