Í frétt Samtaka skattgreiðenda þann 26. febrúar sl. sögðum við frá því að Samtökin hefðu sent erindi til sex ráðuneyta er vörðuðu ársreikninga samtals 26 undirstofnana þeirra. Tilefni erindisins var það að óska eftir afritum ársreikninga sem ekki hafði verið skilað á vefsvæðið arsreikningar.rikisreikningur.is. Í öllum tilvikum var um að ræða ársreikninga vegna rekstrarársins 2018.

Nú hefur Dómsmálaráðuneyti svarað Samtökum skattgreiðenda. Í tilviki þess ráðuneytis var um að ræða tvær undirstofnanir sem höfðu ekki skilað ársreikningi; Ríkislögreglustjóra og Landsrétt. Í viðhengi með svari ráðuneytisins fylgdu ekki ársreikningar, staðfestir af forstöðumönnum umræddra stofnana, heldur einungis drög að ársreikningum fyrir árið 2018 og er tekið fram í svari ráðuneytisins að um drög sé að ræða.

Þar höfum við það. Forstöðumenn Ríkislögreglustjóra og Landsréttar einfaldlega slepptu því að gera fullnægjandi grein fyrir rekstri þeirra stofnana sem þeir veittu forstöðu árið 2018. Þessu átti svo einfaldlega að leyna skattgreiðendum með því að láta hjá líða að afhenda ársreikningana til birtingar á vefsvæðinu arsreikningar.rikisreikningur.is.

Starfsemi Samtaka skattgreiðenda er rekin fyrir mánaðarlega styrki almennings. Ef þú vilt koma í hóp velgjörðarmanna okkar, er hægt að styrkja samtökin hérna eða senda okkur póst til að fá nánari kynningu á starfseminni á upplysingar@skattgreidendur.is