Líkt og fram hefur komið hafa Samtök skattgreiðenda viljað fá það upplýst hvaða aðilar það eru sem hafa styrkt Ríkisútvarpið um tugi milljóna á síðustu árum. Ríkisútvarpið synjaði því að veita þessar upplýsingar svo samtökin kærðu synjunina til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Nefndin hefur kveðið upp sinn úrskurð þar sem tekið var undir sjónarmið Ríkisútvarpsins að gögnin væru ekki fyrirliggjandi og að það kostaði verulega vinnu að taka þau saman. Hér má sjá úrskurð nefndarinnar í heild sinni.

Í Morgunblaðinu í dag er umfjöllun um styrki sem Ríkisútvarpið hefur þegið frá Evrópusambandinu, sem Evrópusambandið hefur viðurkennt að hafi í einhverjum tilfellum verið misnotaðir í pólitískum tilgangi. Það hlýtur því að skapa sérstaka hættu á tortryggni í garð Ríkisútvarpsins að reyna að koma í veg fyrir að almenningur fái að vita hverjir hafi styrkt stofnunina á undanförnum árum.

Af samtölum okkar við reynda bókara má ráða að það taki aðeins nokkrar mínútur að taka saman gögn uppúr nútíma bókhaldskerfum. Ríkisútvarpið notar bókhaldskerfið Microsoft Nav Dynamics sem flokkast undir nútíma bókhaldskerfi.

Ef vinnan við að taka saman þessa styrki er svona veruleg, gæti það verið til marks um að styrkveitendur séu mjög margir?

Hvað sem því lítur þá óskuðu Samtök skattgreiðenda í dag eftir tilboði frá Ríkisútvarpinu í þá vinnu að taka saman gögn um þessa styrki fyrir tímabilið 2021 til 2024.

Starfsemi Samtaka skattgreiðenda er rekin fyrir mánaðarlega styrki almennings. Ef þú vilt koma í hóp velgjörðarmanna okkar, er hægt að styrkja samtökin hérna eða senda okkur póst til að fá nánari kynningu á starfseminni á upplysingar@skattgreidendur.is