Þann 1. mars 2014, á 25 ára afmæli afnáms banns við sölu á bjór á Íslandi, ýttu Samtök skattgreiðenda úr vör nýju átaki til að vekja athygli fólks á himinháum sköttum á bjór. Félagsmenn í Samtökunum dreifðu yfir 10.000 bjórmottum á bari, veitingastaði og hótel víðsvegar um landið og fengu allstaðar góðar viðtökur.
Hugmyndin að glasamottunni er fengin að láni frá bresku skattgreiðendasamtökunum en herferð þeirra vakti gríðarlega athygli þar í landi og olli því að stjórnvöld hættu við fyrirhugaðar skattahækkanir á áfengi.
„Með dreifingu bjórmottunnar erum við fyrst og fremst að vekja athygli fólks á himinháum lífsstílssköttum á vörum sem fáir þora að verja eins og bjór, sykri og bensíni.“ segir Skafti Harðarson, formaður Samtaka skattgreiðenda. „Kaupmáttur myndi sannarlega aukast umtalsvert ef hið opinbera myndi slá af skattpíningunni. Hið opinbera getur hækkað kaupmátt okkar allra með einfaldara regluverki, minni afskiptum af frjálsum samningum fólks og niðurfellingu tolla og vörugjalda. Samtök skattgreiðenda sem eru nú með yfir 1.000 meðlimi hafa nú í rúmt ár beitt sér fyrir því að skattar séu lækkaðir eftir megni og að hið opinbera fari betur með skattfé. Samtökin hafa til þessa einkum beitt sér með greinarskrifum, auglýsingum og með því að standa að komu erlendra fyrirlesara hingað til lands.“
Hvernig getur þú hjálpað til?

- Sendu þingmönnum í þínu kjördæmi póst og hvettu þá til að stilla bjórskattinum í hóf
- Segðu fólki frá átakinu og hvettu það til að segja skoðun sína á t.d. Facebook
- Skrifaðu hvatningarorð á Twitter eða sendu mynd á Instagram (#bjormotta)
- Styrktu átakið svo að Samtökin geti prentað fleiri mottur