Þann 16. febrúar sl. kærðu Samtök skattgreiðenda Ríkisútvarpið ohf. til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Líklegt má telja að í kjölfar þess hafi fimm stjórnarmenn í RÚV lagt fram bókun í stjórn stofnunarinnar þess efnis að varhugavert væri að stofnunin tækju við styrkjum frá hagsmunaaðilum við dagskrárgerð, líkt og greint var frá í Morgunblaðinu í gær.
RÚV hefur svarað úrskurðarnefndinni með meðfylgjandi svari.
Í dag svöruðu Samtök skattgreiðenda erindi RÚV með neðangreindum hætti:
Upphafleg fyrirspurn send eftir að í ljós kom að tölur stemmdu ekki í ársreikningum stofnunarinnar og ekki var gerð grein fyrir tugum milljóna á ári af tekjum til stofnunarinnar.
Óhæði í dagskrárgerð
Í lögum um Ríkisútvarpið nr. 23/2013 er kveðið á um að stofnunin eigi að „stuðla að lýðræðislegri umræðu“ (1. gr.), „ábyrgjast að sanngirni og hlutlægni sé gætt í frásögn, túlkun og dagskrárgerð, leitað sé upplýsinga frá báðum eða öllum aðilum og sjónarmið þeirra kynnt sem jafnast“ og „vera óháð stjórnmálalegum, hugmyndafræðilegum og efnahagslegum hagsmunum í efnismeðferð og ritstjórnarákvörðunum“ (3. gr.).
Ef Ríkisútvarpið tekur við styrkjum frá hagsmunaaðilum verður ekki með góðu móti séð hvernig óhæði stofnunarinnar í dagskrárgerð sé hafið yfir vafa og hætta er á að tortryggni myndist í garð dagskrárgerðar stofnunarinnar, sér í lagi ef leynd á að ríkja yfir þessum styrkjum. Það ætti því í raun að vera sérstakt kappsmál hjá Ríkisútvarpinu að eyða mögulegri tortryggni í garð dagskrárgerðar stofnunarinnar með því að birta lista yfir þá sem styrkja stofnunina og í hvaða skyni þessir styrkir voru veittir – í stað þess að leyna þessum upplýsingum.
Í þessu samhengi má benda á að Fjölmiðlanefnd hefur á undanförnum árum verið að sekta stjórnendur ýmissa hlaðvarpa og einstaklinga á samfélagsmiðlum vegna þess að þeim hefur láðst að geta þess að einhver umfjöllun kunni að vera styrkt af þriðja aðila. Ef einstaklingar með hlaðvarp eða samfélagsmiðil þarf að gæta óhæði í sinni tjáningu, ætti ekki að gera minni kröfur til ríkisfjölmiðilsins, sem er stærsti fjölmiðill landsins (mælt í tekjum).
Gögn ekki fyrirliggjandi
Í svari Ríkisútvarpsins til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál er helsta fyrirstaða þess að afhenda þessar upplýsingar sú að gögnin séu ekki fyrirliggjandi. Vandséð er hvernig hægt sé að búa til ársreikning stofnunarinnar án þess að öll gögn séu fyrirliggjandi.
Í svari Björns Þórs Hermannssonar til Samtaka skattgreiðenda sagði: „Aðrar tekjur en af almannaþjónustu og samkeppnisrekstri námu um 25 m.kr. árið 2022 og 75 m.kr. árið 2023 eins og þú nefnir í póstinum. Þarna er að stærstum hluta um að ræða ýmiss konar tilfallandi styrki en á árinu 2023 voru einnig tekjufærðar tjónsbætur sem ekki falla undir almannaþjónustu eða samkeppnisrekstur.“
Til þess að geta veitt þetta svar er ljóst að gögnin voru fyrirliggjandi á þeim tímapunkti sem svarið var sent.
Sjónarmiðum Ríkisútvarpsins er því hafnað.
Næstu skref eru þau að Úrskurðarnefnd um upplýsingamál mun á næstunni fella sinn úrskurð í málinu.
Starfsemi Samtaka skattgreiðenda er rekin fyrir mánaðarlega styrki almennings. Ef þú vilt koma í hóp velgjörðarmanna okkar, er hægt að styrkja samtökin hérna eða senda okkur póst til að fá nánari kynningu á starfseminni á upplysingar@skattgreidendur.is