Um rekstur Hörpu var fjallað í Kastljósi Ríkisútvarpsins þann 2. september sl. Brynja Þorgeirsdóttir flutti þar inngang að umfjölluninni og segir frá því að á aðeins fjórum árum hafa tapast 1.900 milljónir í rekstri hússins. Þrátt fyrir það kaus hún að tala um að rekstur Hörpu sé nú „í járnum”. En um það orðasamband segir málfarsbankinn:„Orðasambandið standa/vera í járnum merkir: vega salt, vera jafnt (svo að tvísýnt er um úrslit), vera svipað.”

Þannig virðist sá skilningur flestra á orðasambandinu vera réttur að „í járnum” þýði að litlu megi muni á hvern veg fari. En rekstur Hörpu er þá engan veginn í járnum því þrátt fyrir auknar tekjur og aukinn fjölda gesta fer rekstrarkostnaðurinn líka hækkandi og bullandi tap er niðurstaðan, ár eftir ár.

Samkvæmt upplýsingum Kastljóss námu rekstrartekjurnar 941 milljón árið 2014, en útgjöldin voru gott betur hærri, eða 1.490 milljónir, eða halli upp á 549 milljónir króna. Þessi halli tekur ekki einu sinni tillit til árlegrar afborgunar lána sem tekin voru til að klára húsið, en þar er um að ræða u.þ.b. 1.000 milljónir króna árlega til ársins 2046. Hið eiginlega tap árið 2014 er því 1.549 milljónir króna. Fróðlegt er að rifja upp orð stjórnarformanns hússins árið 2010, en hann fullyrti að húsið yrði ekki baggi á skattgreiðendum og myndu standa undir rekstrarkostnaði sem og afborgunum af lánum. En kannski telja rekstraraðilar hússins árlegt framlag ríkis og Reykjavíkurborgar sem tekjur hússins þó útgjöld skattgreiðenda séu.

Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu, tekur undir það sjónarmið fyrrum stjórnarformanns hússins að húsið skuli og eigi að standa undir rekstrarkostnaði og að sjálfsagt sé að gera þá kröfu. Hins vegar sé það engan veginn eðlilegt að húsið greiði þá fasteignaskatta sem á það hefur verið lagt, né heldur ræðir hann afborganir af lánum. En skattgreiðendur eiga að reikna sér til tekna einhverjar ímyndaðar 5.000 milljónir króna í gjaldeyrisöflun sem beinlínis megi eigna tilvist hússins. Rétt eins og einhver geti fullyrt að þessar tekjur, eða gjaldeyrir, hefði ekki komið til án hússins. Hvergi er rætt um hversu neikvæðar afleiðingar Harpan kann að hafa haft á aðra valkosti fyrir ráðstefnur og tónleikahald.

Í umfjöllun Kastljóss er þess sérstaklega getið að árið 2014 hafi alls 1.500.000 manns komið í Hörpu. Ekki bera að draga þá tölu í efa. En er þá ekki einfalt mál að krefja hvern gest um aðeins 500 krónur í viðbót fyrir heimsóknina í þetta verðlaunahús. Er það ekki endanlegur mælikvarði á hversu mikils við virði húsið hvað gestir þess eru tilbúnir til að borga? Þessi lítilsháttar hækkun myndi auka tekjur hússins um 750 milljónir króna á ári – hallareksturinn hyrfi og húsið gæti farið að létta undir með skattgreiðendum með því að standa undir hluta afborgunar lána.