Tag: mömmuríkið

En þeir bjargarlausu?

Áhugaverðar vangaveltur frá Ásgeiri Ingvarssyni, blaðamanni, í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 19. júlí 2012:

„Kostir smærra ríkis fara ekki á milli mála. Með meira frelsi og meiri sjálfsábyrgð má reikna með auknum hagvexti og aukinni velsæld.

Margir vilja samt meina að ríkið verði að vera til staðar þegar kemur að þeim okkar sem geta enga björg sér veitt. Sum okkar veikjast, slasast, eða þurfa að glíma við fötlun af þeirri stærðargráðu að einstaklingurinn og hans nánustu gætu ekki með góðu móti ráðið við kostnaðinn sem af hlýst.

(Og það þó að kaupmáttur íslensks meðallaunamanns myndi u.þ.b. þrefaldast ef ríkið myndi hætta að pína okkur öll með sköttum sínum, reglum og gjöldum).

En þurfum við endilega ríkið til að tryggja hag þessa hóps samfélagsins? Getur góðmennskan og náungakærleikurinn ekki fundið sér annan farveg en hið opinbera?

Íslendingar eiga nokkrar hetjur, sem þrátt fyrir fötlun og erfið veikindi stíga fram og standa í endalausum slagsmálum við kerfið, reyna að fá upphæðir hækkaðar og glíma við vanhugsaðar reglur.

Það sem ég furða mig á er að þessar sömu hetjur okkar virðast alltaf á þeirri skoðun að lausnin sé einfaldlega að ríkið geri hlutina öðruvísi; að bæta megi kerfið í smáskömmtum með því að fara í blöðin, tæta í sig reglugerðir og tukta til pólitíkusa þegar svar mömmuríkisins er: „tölvan segir nei”.

Af hverju hvarflar ekki oftar að fólki að lausnin sé að taka hið opinbera einfaldlega út úr myndinni?

Óskilvirkni og ósanngirni

Ein sterkustu rökin ættu að vera þær mælingar sem sýna hvað umhyggja ríkisins er óskilvirk. Þannig hafa bandarískir rannsakendur, eins og James R. Edwards við Montana-háskóla, skrifað um að fyrir hvern dollar í skatt sem stjórnvöld þar í landi afla fyrir minni máttar rata aðeins 30 sent í hendur þeirra sem á að hjálpa.

Á meðan fara á bilinu 60-80 sent af hverjum dollar sem veittur er til einkarekinna góðgerðafélaga beint til þeirra bágstöddu. Ef sömu hlutföll eiga við á Íslandi myndi það þýða að fyrir sömu upphæð gætu einkarekin góðgerðafélög gert tvöfalt meira gagn en ríkið.

Hin rökin eru ekki síður sterk; að það er eðli mömmuríkisins að semja reglur sem eru langt frá því að ná utan um öll tilvik. Útkoman verður ömurleg ósanngirni, hindranir og óæskilegir hvatar. Útkoman verður að ótalmargir fá ekki það sem þeir svo réttilega þarfnast og eiga eðlilegt tilkall til. Útkoman verður ómanneskjulegt samfélag.

Nefnd manna tekur um það ákvörðun, yfir vínarbrauðum, hversu miklum fjármunum skal ráðstafað í málaflokkinn. Önnur nefnd, einnig mett af vínarbrauðum, lokuð inni í fundarherbergi, eins fjarri raunveruleika lífsins og fyrri nefndin, fær það verk að semja reglur til að útdeila peningunum og setja niður á blað forskrift sem leysa á allan vanda.

Auðvitað fellur fjöldi fólks milli þilja í regluverkinu og útkoman verður þvert á það sem til stóð: Tekjur umfram viðmið? Eignir umfram viðmið? Heldur þú að þú þurfir aðstoðarhund? Stoðtækin ekki á lager? Lyfin ekki á lista? Þarftu bað oftar en tvisvar í viku? Viltu ganga í venjulegan skóla? Ætlarðu með rafmagnshjólastólinn úr landi? Tölvan segir nei, nei og aftur nei.

Stóri munurinn á mömmuríkinu og góðgerð einstaklinga er einmitt þessi: að jafnvel þegar embættismaðurinn stendur frammi fyrir augljósri neyð og ranglæti getur hann alltaf sagt nei og skýlt sér á bak við einhverja klausu í reglugerð: Næsti takk!

En venjulegt fólk af holdi og blóði sem stendur frammi fyrir bjargarleysi samborgarans vill segja já, já og aftur já. Við þekkjum raunverulega þörf þegar við sjáum hana og gefum eins mikið og við getum. Við gefum þar til varla er nóg eftir handa okkur sjálfum nema til að eiga fyrir hafragraut fram að næsta launaseðli. Og þá gefum við meira.

Þegar ríkið smækkar fær mannshjartað að stækka, og það út af fyrir sig er eftirsóknarvert markmið.”

lesa áfram

Dýrar eru gjafir ríkisins

Enn ein góð grein eftir Ásgeir Ingvarsson, blaðamann á Morgunblaðinu. Þessi birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins þann 12. júlí:

Í umræðunni um háa skatta og allt of mikil ríkisútgjöld gerist það yfirleitt að úr einhverju horninu heyrist sagt: „En við fáum svo mikið fyrir alla skattana!“

Og það er rétt að við fáum ýmislegt frá ríki og sveitarfélögum: menntakerfi, heilbrigðiskerfi og almannatryggingar svo taldir séu upp stærstu póstar velferðarkerfisins.

En ef málið er skoðað nánar kemur í ljós að við fáum ekkert „gefins”; að við borgum ákaflega hátt gjald fyrir mömmuríkið. Við fáum líka alls ekki peninganna virði og ætti ekki að koma á óvart enda hafa ríki og sveitarfélög mun veikari hvata en fyrirtæki á markaði til að fullnægja þörfum almennings með æ betri vöru á æ betra verði.

Ekki bara það, heldur er óhjákvæmilegt að þegar hið opinbera „gefur” okkur eitthvað þá stýrir það um leið því hvað við megum, getum og fáum.

Viltu fá lækningu? Ríkið ræður hvenær þú kemst í aðgerð, hvernig meðferð þú mátt fá og hvar, og hvaða lyf þú mátt taka. Viltu fá lífeyrisgreiðslurnar þínar? Ekki láta þig dreyma um að verja ellinni á sólbakaðri strönd á ódýrum stað i Asíu, því ríkið ræður hvar þú mátt búa. Viltu mennta þig? Þá ræður ríkið hvaða menntun stendur þér til boða.

Þeir klárustu fá að borga tvöföld skólagjöld

Það má taka nokkur lýsandi dæmi úr menntakerfinu.

Ríkið „gefur“ landsmönnum nær ókeypis nám við HÍ, sem í besta falli má kalla miðlungsgóðan háskóla. Meðalkostnaður skattgreiðenda af hverjum nemanda er 1,1 milljón á ári, skv. tölum frá 2011. Hefurðu metnaðinn og getuna til að læra við bestu og dýrustu háskóla heims? Þá þarftu í raun að borga tvöföld skólagjöld: annars vegar við skólann úti, og hins vegar skattana til að reka Háskóla Íslands.

Ríkið ákveður líka hvað uppihaldið má kosta úti í Boston, London eða Kaupmannahöfn, og »gefur« námslán. Er lífið dýrara en Lánasjóðurinn er búinn að reikna út? Fellur fjölskyldan og lífstíllinn ekki alveg að vísitöluformúlunni? Ertu með tekjur umfram viðmið? Þá er tekið af láninu fyrir hverja krónu sem þú aflar umfram vandlega útreiknaðar töflur LÍN. Og skattstjóri tekur auðvitað líka sinn skerf enda þarf að fjármagna námslánakerfið.

Heldurðu að það borgi sig fyrir þig að taka vetur í Lyon og ná betri tökum á frönskunni? Þú mátt borga skattana, en dútl í tungumálanámi er ekki lánshæft. Yrðirðu verðmætari starfskraftur eða bara bættari manneskja af að læra bardagalistir í Shaolin-musterinu eða tangó í Argentínu? Ríkið er búið að ákveða hvað er gott og gagnlegt nám, þú fellur milli þilja í lánareglunum, en sleppur ekki við skattana.

Og hvað kostar svo dýrðin sem menntakerfið er?

Mér reiknast til að öll skólagangan, frá inngöngu í leikskóla við tveggja ára aldur til bachelorgráðu, alls um 21 ár á skólabekk, kosti ríki og sveitarfélög í kringum 27 milljónir. Myndu margir halda að um rausnarlega „gjöf“ væri að ræða, jafnvel þó flestar mælingar segi okkur að menntunin sé frekar slöpp og börnin fái ekki beinlínis að blómstra í umsjá hins opinbera.

Nema hvað, ef barn á tvo foreldra, og hvort foreldri fyrir sig er með meðallaun m.v. síðustu launakönnun VR, og ef við tökum saman þá skatta og gjöld sem foreldrarnir borga af launum sínum, eignum og neyslu heimilisins, þá viti menn:

Foreldrarnir eru á aðeins fimm árum búnir að greiða ríkinu sem nemur reikningnum fyrir allri menntun barnsins, alltof dýr og alltof léleg sem hún er.

lesa áfram

top