Enn ein góð grein eftir Ásgeir Ingvarsson, blaðamann á Morgunblaðinu. Þessi birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins þann 12. júlí:
Í umræðunni um háa skatta og allt of mikil ríkisútgjöld gerist það yfirleitt að úr einhverju horninu heyrist sagt: „En við fáum svo mikið fyrir alla skattana!“
Og það er rétt að við fáum ýmislegt frá ríki og sveitarfélögum: menntakerfi, heilbrigðiskerfi og almannatryggingar svo taldir séu upp stærstu póstar velferðarkerfisins.
En ef málið er skoðað nánar kemur í ljós að við fáum ekkert „gefins”; að við borgum ákaflega hátt gjald fyrir mömmuríkið. Við fáum líka alls ekki peninganna virði og ætti ekki að koma á óvart enda hafa ríki og sveitarfélög mun veikari hvata en fyrirtæki á markaði til að fullnægja þörfum almennings með æ betri vöru á æ betra verði.
Ekki bara það, heldur er óhjákvæmilegt að þegar hið opinbera „gefur” okkur eitthvað þá stýrir það um leið því hvað við megum, getum og fáum.
Viltu fá lækningu? Ríkið ræður hvenær þú kemst í aðgerð, hvernig meðferð þú mátt fá og hvar, og hvaða lyf þú mátt taka. Viltu fá lífeyrisgreiðslurnar þínar? Ekki láta þig dreyma um að verja ellinni á sólbakaðri strönd á ódýrum stað i Asíu, því ríkið ræður hvar þú mátt búa. Viltu mennta þig? Þá ræður ríkið hvaða menntun stendur þér til boða.
Þeir klárustu fá að borga tvöföld skólagjöld
Það má taka nokkur lýsandi dæmi úr menntakerfinu.
Ríkið „gefur“ landsmönnum nær ókeypis nám við HÍ, sem í besta falli má kalla miðlungsgóðan háskóla. Meðalkostnaður skattgreiðenda af hverjum nemanda er 1,1 milljón á ári, skv. tölum frá 2011. Hefurðu metnaðinn og getuna til að læra við bestu og dýrustu háskóla heims? Þá þarftu í raun að borga tvöföld skólagjöld: annars vegar við skólann úti, og hins vegar skattana til að reka Háskóla Íslands.
Ríkið ákveður líka hvað uppihaldið má kosta úti í Boston, London eða Kaupmannahöfn, og »gefur« námslán. Er lífið dýrara en Lánasjóðurinn er búinn að reikna út? Fellur fjölskyldan og lífstíllinn ekki alveg að vísitöluformúlunni? Ertu með tekjur umfram viðmið? Þá er tekið af láninu fyrir hverja krónu sem þú aflar umfram vandlega útreiknaðar töflur LÍN. Og skattstjóri tekur auðvitað líka sinn skerf enda þarf að fjármagna námslánakerfið.
Heldurðu að það borgi sig fyrir þig að taka vetur í Lyon og ná betri tökum á frönskunni? Þú mátt borga skattana, en dútl í tungumálanámi er ekki lánshæft. Yrðirðu verðmætari starfskraftur eða bara bættari manneskja af að læra bardagalistir í Shaolin-musterinu eða tangó í Argentínu? Ríkið er búið að ákveða hvað er gott og gagnlegt nám, þú fellur milli þilja í lánareglunum, en sleppur ekki við skattana.
Og hvað kostar svo dýrðin sem menntakerfið er?
Mér reiknast til að öll skólagangan, frá inngöngu í leikskóla við tveggja ára aldur til bachelorgráðu, alls um 21 ár á skólabekk, kosti ríki og sveitarfélög í kringum 27 milljónir. Myndu margir halda að um rausnarlega „gjöf“ væri að ræða, jafnvel þó flestar mælingar segi okkur að menntunin sé frekar slöpp og börnin fái ekki beinlínis að blómstra í umsjá hins opinbera.
Nema hvað, ef barn á tvo foreldra, og hvort foreldri fyrir sig er með meðallaun m.v. síðustu launakönnun VR, og ef við tökum saman þá skatta og gjöld sem foreldrarnir borga af launum sínum, eignum og neyslu heimilisins, þá viti menn:
Foreldrarnir eru á aðeins fimm árum búnir að greiða ríkinu sem nemur reikningnum fyrir allri menntun barnsins, alltof dýr og alltof léleg sem hún er.