Bæjarstjóri Seltjarnarness, Ásgerður Halldórsdóttir, skrifar grein í Morgunblaðið í dag um eigið ágæti, annarra bæjarfulltrúa og bæjarstarfsmanna á Seltjarnarnesi. Hún segir í grein sinni: „Með samstilltu átaki bæjarstjórnar og starfsmanna Seltjarnarnesbæjar varð rekstur og afkoma árið 2011 mun betri en árið á undan. Reikningar bæjarins fyrir nýliðið ár gera ráð fyrir afgangi upp á 93 m. kr. en sambærileg tala fyrir árið 2010 var 1 m. kr.”
Sjálfshólið heldur síðan áfram í lengra máli, sem ekki er ástæða til að endurtaka hér. En í engu er getið þeirra sem stærstan þátt áttu í að bæta fjárhag bæjarins; skattgreiðenda. Bættur fjárhagur bæjarins grundvallast auðvitað á 7,3% hækkun útsvarsins sem samþykkt var í desember 2010. En þess er hvergi getið í umræddri grein. Tóku þeir ekki þátt í þessu samstillta átaki? Eða veit Ásgerður sem er að fæstir þeirra áttu von á skattahækkun frá þessum meirihluta.
Nú er Seltjarnarnesbær líklega ekki illa rekið sveitarfélag í samanburði við mörg önnur og lítt skuldsett. Yfirmenn þess telja sig e.t.v. hafa af einhverju að státa. En það er löngu kominn tími til að skattgreiðendur láta í sér heyra og bendi á að fjárhagsvandræði sveitarfélaga og ríkis er ekki tekjuvandamál. Það er útgjaldavandamál. Íslensk heimili og fyrirtæki hafa mörg hver orðið að skera niður kostnað til að standa undir eigin rekstri þegar tekjurnar hafa minnkað í kjölfar bankakreppunnar. En hið opinbera gerir hið gagnstæða; það hirðir stærri hluta tekna þessara sömu aðila og skammtar sér einfaldlega meiri tekjur. Stjórnmálamenn stæra sig síðan af bættum rekstri í kjölfarið. Það er sama hvort þeir heita Steingrímur J. eða Ásgerður. Þeir eiga ekki þakklæti skilið fyrir skattpíninguna.
Ætli rekstur heimila og fyrirtækja væri nokkuð vandamál ef þau ættu sér eilífa uppsprettu fjár úr annarra vösum?