Óli Björn Kárason skrifar pistla í Morgunblaðið á miðvikudögum sem margir hverjir hafa fjallað um skattamál. Hér má lesa einn þeirra, en allt of fáir eru til að vekja athygli á því fullkomna siðleysi sem ríkir í því að við eyðum framtíðar skatttekjum næstu kynslóða með látlausri skuldsetningu hins opinbera:
„Fátt er gleðilegra en fæðing barns. En það er skuggi yfir gleðinni.
Um leið og barn fæðist er hengdur á það þungur skuldabaggi sem að óbreyttu mun þyngjast eftir því sem barnið eldist. Við sem eldri erum höfum ákveðið að færa barninu 2,4 milljóna króna skuld í vöggugjöf vegna þess að við lifum um efni fram. Við höfum ekki treyst okkur til að taka til og neita okkur um ýmislegt sem við höfum ekki efni á. Okkur finnst þægilegra að senda reikninginn til komandi kynslóða. Þar sannast hið fornkveðna að börnunum stafar mest hætta af fordæmum hinna fullorðnu.
Í óseðjandi hungri okkar og löngun til að byggja tónlistarhús, bora jarðgöng, viðhalda dýrri utanríkisþjónustu, rándýru stjórnkerfi, kollvarpa stjórnarskránni og dæla peningum í eitthvað sem kallast grænt hagkerfi, dugar ekki að skuldsetja komandi kynslóðir. Því er talið nauðsynlegt að seilast dýpra í vasa þeirra sem eldri eru og þá ekki síst þeirra sem lokið hafa góðu ævistarfi. Í leit að réttlætingu er skatturinn kallaður auðlegðarskattur, sem hefur yfir sér miklu jákvæðara yfirbragð en réttnefnið; eignaupptökuskattur.
Óréttlátur skattur
Frá því að sitjandi ríkisstjórn, sem kennir sig við norræna velferð, tók við völdum hafa verið gerðar yfir 100 breytingar á skattkerfinu. Skattar hækkaðir og nýir lagðir á. Réttlæti og sanngirni hefur ekki verið í för með ríkisstjórninni. Búið er að rústa skattkerfinu og innleiða einhvern ranglátasta skatt sem þekkist. Eitt fyrsta verkefni nýrrar ríkisstjórnar verður að afnema eignaupptökuskattinn og í framhaldinu að einfalda allt skattkerfið. Flókið skattkerfi er ávísun á misrétti en einfalt kerfi er besta trygging fyrir meiri jöfnuði allra.
Auðlegðarskatturinn var innheimtur í fyrsta skipti árið 2010 vegna tekjuársins 2009. Þá skilaði skatturinn 3,8 milljörðum í ríkissjóð. Í fyrstu var almenningi talin trú um að skatturinn væri tímabundinn en nauðsynlegur vegna þrenginga í efnahag ríkisins. Líkt og oftast þegar skattar eru sagðir tímabundnir, eru þeir framlengdir og á stundum hækkaðir. Vinstristjórnin hefur ekki í hyggju að standa við fyrirheit um tímabundna skattheimtu heldur þvert á móti hafa skrúfurnar verið hertar svo um munar með álagningu viðbótarskatts á eignir. Samkvæmt álagningu þessa árs skilar eignaupptökuskatturinn um átta milljörðum króna í ríkissjóð og hefur því meira en tvöfaldast frá því hann var fyrst lagður á.
Eldra fólk og sjálfstæðir atvinnurekendur
Samkvæmt upplýsingum Ríkisskattstjóra standa liðlega 5.200 einstaklingar undir hinum svokallaða auðlegðarskatti. Þetta þýðir að meðaltali um 1,5 milljónir króna. Margir þeirra sem horfa á upptöku eigna sinna í formi beinnar skattheimtu, eru tekjulitlir eða jafnvel tekjulausir. Þeir eiga ekki annan kost en að stofna til skulda eða selja eignir til að standa skil á skattinum.
Svipað má segja um sjálfstæða atvinnurekandann, sem af dugnaði og áræði hefur byggt upp fyrirtæki. Stærsti hluti ævisparnaðarins er bundinn í fyrirtækinu. Þetta var fjármálaráðherra norrænu velferðarstjórnarinnar – skattmanni – fyllilega ljóst. Því var talið nauðsynlegt að endurmeta verðmæti fyrirtækja í þeim tilgangi að ná meiri fjármunum inn í að því er virðist botnlausan ríkiskassann. Sérstök viðbót við eignaupptökuskattinn var sögð sjálfsögð. Margir sjálfstæðir atvinnurekendur eiga ekki annan kost en að ganga á eigið fé til að greiða það sem krafist er. Eftir stendur veikara fyrirtæki og fátækari atvinnurekandi. Hver skyldi hagnast á því?
Eldri hjónin sem neyddust til að innleysa eignir eða stofna til skulda og sjálfstæði atvinnurekandinn sem varð nauðugur viljugur að ganga á eigið fé, til að standa undir álögðum sköttum, horfa upp á enn meira óréttlæti.
Þegar Alþingi samþykkti hina óréttlátu skattheimtu, bitu þingmenn höfuðið af skömminni með því að tryggja að eignir upp á hundruð milljóna væru undanþegnar skattinum. Hvers vegna? Jú, vegna þess að þeir sem gert hafa þingmennsku að ævistarfi eiga sinn ævisparnað fyrst og fremst í formi mikilla lífeyrisréttinda sem ríkið ábyrgist. Þess vegna hafa lífeyrisréttindi ekki verið skattlögð en annar ævisparnaður er hægt og bítandi gerður upptækur.
…verra þeirra réttlæti
„Vont er þeirra ránglæti, verra þeirra réttlæti,“ sagði Jón Hreggviðsson. Varla er hægt að lýsa stefnu ríkisstjórnarinnar í skattamálum betur. Í mörg ár hefur flestum verið ljóst það óréttlæti sem hefur viðgengist í lífeyrismálum landsmanna. Í stað þess að leiðrétta mismuninn ákváðu stjórnvöld í nafni velferðar að auka ranglætið enn frekar með eignaupptökuskattinum.
Skattheimtumaðurinn fylgist vel með. Hann mætir við vöggu hvítvoðungsins til að afhenda honum skuldabagga og truflar síðan rólegt ævikvöld gamalla hjóna með því að krefja þau um hluta þess sem þau hafa eignast á langri ævi. Þess á milli eltist skattmann við sjálfstæða atvinnurekandann til þess eins að veikja undirstöður atvinnulífsins.
Komandi kosningar til Alþingis snúast ekki aðeins um að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað heldur ekki síður að leiðrétta augljóst ranglæti.”