Grein eftir Hróbjart Jónatansson, hæstaréttarlögmann. Birtist upphaflega í Viðskiptablaðinu 8. desember 2011.

Samkvæmt gildandi skattalögum heimtir ríkið svonefndan auðlegðarskatt í 3 ár, frá 2009 til og með 2012 en í honum felst skylda til að greiða ríkissjóði 1,5 % af eignum einstaklinga yfir 75 milljónum króna en 100 milljónum þegar hjón eiga í hlut. Ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að framlengja töku auðlegðarskattsins og hækka hann og því er tilefni til að velta fyrir sér eðli skattheimtu af þessu tagi og hvort hún samrýmist stjórnarskrá íslenska lýðveldisins um friðhelgi eignaréttar og jafnrétti. Hér skal ekki fjallað um efnahagsleg áhrif auðlegðarskatts, utan þess að nefna að löngu er sýnt fram á að skattheimta af þessu tagi leiðir til fjárflótta og hefur neikvæðar efnahagslegar afleiðingar til lengri tíma.

Það er viðurkennd grundvallarregla í lýðræðisþjóðfélagi sem byggir á stjórnarskrárbundnum mannréttindum að löggjafar- og framkvæmdavaldi ríkisins eru sett ákveðin mörk og skilyrði um löglega beitingu opinbers valds. Af henni leiðir að skattlagningarvald ríkisins, líkt og annað opinbert vald, afmarkast af samspili þeirra réttinda sem ríkið hefur til að stjórna með valdi, annars vegar, og þeirra réttinda sem þegnarnir hafa til þess að ráðstafa sér og sínum eignum, hins vegar.

Í 77.gr. stjórnarskrárinnar segir að skattamálum skuli skipa með lögum og ekki megi leggja skatt á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu til sem ráða skattskyldu. Hugtakið „skattur“ er þó ekki skilgreint í stjórnarskránni og kemur því ekki fram þar hvaða skilning stjórnarskrárgjafinn lagði í hugtakið þegar ákvæðið var sett. Segja má að skatthugtakið tengist að öllu jöfnu skyldubundum framlögum til hins opinbera sem stofnast vegna vinnu, erfða eða annarra tilvika þegar skattþegni áskotnast fjárhagsleg verðmæti af einhverju tagi. Í skatti felst því hlutdeild ríkisins í tekjum fólks hvaðan sem þær eru sprottnar, hvort heldur eru launa- eða fjármagnstekjur ellegar fyrir arf, happdrættisþátttöku, skaðabótaskyldan verknað svo dæmi séu nefnd. Í öllum þessum tilvikum heldur skattþegninn eftir meginhlutanum af þeirri eignaaukningu sem honum áskotnast. Skattar af bifreiðum og fasteignum grundvallast á tiltekinni þjónustu eða notkun á eignunum.

Auðlegðarskattur á Íslandi er frábrugðinn þeirri skattlagningu sem að framan er lýst, á þann hátt að hann grundvallast ekki á eignaaukningu sem skattþegninn fær í einu eða öðru formi, eða fyrir þjónustu eða notkun eignar, heldur miðast hann við eignirnar sem slíkar án tillits til arðs eða tekna. Þannig felur auðlegðarskatturinn í sér í raun eignaupptöku ríkisins í tilteknum mæli á hverju ári.  Í núverandi löggjöf er ríkinu gert kleift að taka til sín eignir fólks umfram lögbundið fríeignamark á tilteknum árafjölda. Er því eðlilegt að íhuga hvort að skattheimta af þessu tagi samrýmist stjórnarskrárbundinni eignavernd og jafnrétti.

Í 72. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að eignarétturinn sé friðhelgur og að engan megi skylda til að láta eign sína af hendi nema almenningsþörf krefji, lög mæli fyrir um það og fullt verði komi fyrir. Hvaða þýðingu hefur þetta ákvæði í þessu samhengi? Er auðlegðarskattur brot á ákvæðinu um friðhelgi eignaréttarins eða er hann eðlileg skattheimta sem á sér langa sögu? Í 65. gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um jafnrétti í öllu tilliti milli fólks, karla og kvenna.

Eðli auðlegðarskattsins kemur skýrt í ljós ef skattprósentan er aukin úr 1,5% á ári í t.d. 25% svo dæmi sé tekið en þá tekur ríkið eignirnar til sín á 4 árum í stað lengri tíma. Í þessu samhengi fer ekkert á milli mála að eignaupptaka á sér í raun stað undir merkjum skattheimtu. Það er því enginn eðlismunur á því hvort að ríkið taki eignir á 4 árum eða 50 árum heldur aðeins stigsmunur á því hversu lengi ríkið er gera eignirnar upptækar.

Eignaskattar tilheyra fortíðinni víðast hvar í Evrópu. Árið 1994 lýsti þýski stjórnlagadómstóllinn  eignaskatt ólögmætan þar sem skattheimtan tók ekki tillit til tekna viðkomandi skattþegns og því fælist í skattinum ólögmæt eignaupptaka. Í framhaldinu var skatturinn aflagður þar í landi. Þar sem skatturinn er enn við lýði er hann jafnan tengdur tekjum viðkomandi, þ.e.a.s. eignaskatturinn takmarkast að hámarki við tiltekinn hundraðshluta launa viðkomandi.  Má sem dæmi nefna að á Spáni er í gildi tímabundinn eignaskattur til 2ja ára sem þó verður aldrei hærri en 60% af tekjum hvers árs. Þessi tenging við tekjur skattgreiðandans setur skattheimtuna í viðurkennt tekjusamhengi og er því síður metið sem eignaupptaka sem sé andstæð stjórnlögum.

Auðlegðarskatturinn á Íslandi tekur hins vegar ekkert tillit til tekna skattþegans  og er því af sama toga og t.d. eignaskattar sem kommúnistar settu á víða í Austur Evrópu, eftirstríðsáranna. Þá var aðferðin sú að hækka eignaskatta og hirða svo eignirnar af fólki þegar skattar fóru í vanskil. Auðlegðarskattur á slíkum forsendum er auðvitað ekkert annað en eitt form á eignaupptöku. Sambærilegt blasir við sumum Íslendingum s.s. þeim sem eiga eignir en hafa litlar tekjur. Taka má dæmi um aldraðan einstakling, sem ekki er lengur á vinnumarkaði, hann á e.t.v. verðmæta fasteign sem í núverandi árferði gefur ekki af sér tekjur en telst vera auðlegðarskattstofn upp á 150 milljónir króna. Ríkið krefst þess að fá 1,5-2% af verðmæti eignarinnar á hverju ári eða kr. 2.250.000-3.000.000. Ef viðkomandi einstaklingur á ekki laust fé til að greiða skattinn fer ríkið í innheimtuaðgerðir til að knýja greiðsluna fram með fyrirsjáanlegum afleiðingum, eignin verður seld á uppboði til að ríkið fái sitt og hann sviptur eigninni. Spyrja má hvort einhver munur sé þá á íslenskum sósíalisma árið 2011, annars vegar og austur evrópskum sósíalisma eftirstríðsáranna, hins vegar?

Það er augljóst að lítið virði er í stjórnarskrárákvæðinu um friðhelgi eignaréttarins ef auðlegðarskattur er talinn lögleg skattheimta, án nokkurs tillits til tekna viðkomandi einstaklings. Þá er eignaupptakan orðin leyfileg að hætti sósíalismans. Að því er jafnréttið varðar, þá er ljóst að með því að mismuna fólki eftir sambúðarformi, þá er höggvið nærri hinu stjórnarskrárbundna jafnrétti. Af hverju er frítekjumark einstaklinga í óvígðri sambúð hærra en fólks í hjónabandi?

Að mínu viti ríkir a.m.k. verulegur vafi um lögmæti auðlegðarskattsins eins og hann er settur fram og því nauðsynlegt að fá dómstóla til að skera úr því  hvar valdmörkin séu á milli réttmætrar og óréttmætrar eignaupptöku.