Bloggarinn og verkfræðingurinn Geir Ágústsson sendi Samtökunum og skattgreiðendum almennt þarfa áminningu:

Skattgreiðendur eru, eðli málsins samkvæmt, sundruð hjörð. Skattgreiðendur eru allir sem eru ekki á spena hins opinbera og af öllu tagi: Launþegar, fyrirtækjaeigendur, seljendur þjónustu, innflytjendur, útflytjendur, kaupmenn, iðnaðarmenn og svona mætti lengi telja. Ríkisvaldið hefur þá alla í vasa sínum ef svo mætti að orði komast. Allar tekjur allra eru hugsanlegur „tekjustofn“ hins opinbera, ef marka má orðræðu margra stjórnmálamanna, og jafnvel „ónýttur tekjustofn“ ef lögbundin hámörk á skattheimtu eru ekki „fullnýtt“.

Þeir sem eru ekki í sigti skattheimtumanna eru því fegnastir að vera lausir við áreitið hverju sinni. Skammtímahugsunin er hins vegar engum til hagsbóta, því það eina sem ríkisvaldið upplifir er lítil skipulögð andspyrna þegar skattaskrúfan er hert á einhverju fórnarlambinu. Ríkisvaldið passar sig líka vel á að herða bara að einum „hópi“ í einu, og helst nógu fámennum til að andspyrnan sé sem veikust.

Geir Ágústsson

Vegna sundurleitni skattgreiðenda er oft erfitt að fá þá til að standa saman gegn ofríki hins opinbera gagnvart hinum og þessum „hópum“. Hins vegar bregðast „hóparnir“ oft við þegar skattavendinum er sveiflað á þá. En mjó er rödd hinna fámennu hópa, og samstaðan við þá er oft lítil. Nýjasta dæmið er rúm þreföldun á virðisaukaskatti á gistinóttum. Ýmis „samtök“ aðila í ferðaþjónustu á Íslandi hafa brugðist ókvæða við þessari gríðarlegu skattahækkun, og bent á mörg góð mótrök við henni, t.d. þeim að ríkisvaldið muni sennilega hafa minna úr krafsinu þegar á hólminn er komið vegna fækkunar á seldum gistinóttum.

En hvað með aðra skattgreiðendur? Þeir þegja upp til hópa. Þeir hugsa með sér að þorsta ríkisvaldsins megi svala með blóði gistinæturseljenda að þessu sinni, og að langt verði í næsta blóðbað. Sennilega er það rétt þegar til skemmri tíma litið, en reynslan ætti að hafa kennt okkur fyrir löngu síðan að blóðbaðið mun halda áfram.

Það er áríðandi að skattgreiðendur standi saman þegar ríkisvaldið er á veiðum. Öllum skattahækkunum á allt þarf að mótmæla. Ríkisvaldið mun aldrei hætta að hækka skatta ef andspyrnan er veik og dreifð. Ríkisvaldið mun aldrei fá „nóg“. Það stækkar alltaf jafnhratt eða hraðar en skatttekjur þess. Talsmenn fyrirtækja í ferðaþjónustu verða að fá liðsauka, og þeir verða svo að verða öðrum liðsauki þegar ríkisvaldið snýr sér að öðrum fórnarlömbum. Og jafnframt láta það eiga sig að krefjast látlaust liðsinnis ríkisvaldsins.

Sameinaðir stöndum vér gegn ofríki hins opinbera, og sundraðir föllum vér, í gin hinnar botnlausu fjárhirslu ríkisvaldsins.