Grein þessi eftir Óla Björn Kárason fjallar um inntak erindis Dr. Daniel Mitchell, sem hann flutti þann 16. nóvember 2012, fyrir frumkvæði Rannsóknaseturs um nýsköpun og hagvöxt og Samtaka skattgreiðenda. Greinin birist fyrst í Morgunblaðinu 21. nóvember, en hefur einnig verið birt á vef höfundar, www.t24.is.
„Skattaglaðir stjórnmálamenn og fræðimenn hefðu haft gott af því að hlusta á fyrirlestur sem dr. Daniel Mitchell hélt síðastliðinn föstudag um neikvæð áhrif stighækkandi tekjuskatts. Þeir hefðu þá hugsanlega áttað sig betur á neikvæðu samhengi á milli skattheimtu og efnahagslegra framfara. Einhverjir þeirra hefðu jafnvel skilið þær mótsagnir sem fólgnar eru í skattagleðskap ríkisstjórnarinnar.
Í einu orðinu halda hinir skattaglaðværu því fram að hægt sé að hafa áhrif á hegðun almennings og í hinu að skattar hafi lítil eða engin áhrif. Þannig sé rétt að hækka skatta og gjöld á áfengi, tóbak, sykur og aðra óhollustu til að draga úr neyslu og þar með auka velferð og tryggja betra heilsufar þjóðar. Því hærri skattar og gjöld, því minni neysla. En svo snúa glaðværir talsmenn skattheimtunnar við blaðinu og halda því fram að beinir skattar á laun og fyrirtæki hafi lítil eða engin áhrif. Fólk haldi áfram að vinna og afla jafnmikilla (jafnvel meiri) tekna þótt skattar hækki stöðugt. Með öðrum orðum: Hægt sé að draga úr eftirspurn eftir ákveðnum vörum og þjónustu með skattlagningu en skattar á laun og vinnu hafi ekki áhrif.
Mótsögnin ætti að vera öllum augljós, jafnvel hinum skattglöðustu í hópi stjórnmálamanna og fræðimanna.
Enginn skilningur
Enginn skilningur er innan sósíalískrar ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna á samhengi skatta, ríkisútgjalda og hagvaxtar. Skattahækkanir síðustu ára á fyrirtæki og almenning eru byggðar á þeirri trú að ná verði fram einhverju sem kallast „félagslegt réttlæti“. Í reynd hefur „réttlætið“ ekki falist í öðru en að jafna tekjur niður á við í stað þess að auka tækifæri þeirra sem hafa minna á milli handanna til að afla sér meiri tekna.
Innan ríkisstjórnarinnar eru fyrirtæki tortryggð og litið er á vöxt efnahagslífsins, sem er forsenda bættra lífskjara, sem eitthvað af hinu illa. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra lýsti því yfir á flokksráðsfundi VG 2010, að kapítalismi, „sem gerir ráð fyrir endalausum hagvexti“, leiði mannkynið til glötunar. Er nema von að ungliði innan VG leggi til „að á Íslandi sé aðeins starfrækt ein matvöruverslun og hún sé á vegum ríkisins“ og þar með verði engin samkeppni, „bara skýrar reglur og lýðræðisleg stjórnun“.
Ekki hefur Árni Páll Árnason, sem sækist eftir að verða leiðtogi Samfylkingarinnar, mikið jákvæðara viðhorf til atvinnulífsins. Á ársfundi ASÍ 2009 talaði Árni Páll sem félagsmálaráðherra um „óforskammaða kapítalista“ og „ginningarfífl stóriðju og útgerðarauðvald“.
Ólína Þorvarðardóttir, samherji Árna Páls í Samfylkingunni, hefur lagt til að lagður verði allt að 80% tekjuskattur á „ofurlaun“. Þar með bauð hún betur en Lilja Mósesdóttir, sem boðaði 60-70% skattþrep á tekjur yfir eina milljón á mánuði. Þá var Lilja enn félagi í VG og Ögmundur Jónasson tók undir hugmyndir hennar.
Skattagleðin kann sér engin takmörk.
Innbyggður hemill
Flestum hagfræðingum hefur verið það lengi ljóst að samhengi er á milli útgjalda ríkisins og hagvaxtar. Útgjöld til að standa undir grunnstoðum samfélagsins auka hagvöxt en gangi hið opinbera of langt í útgjöldum dregur úr hagvexti – samband útgjalda og hagvaxtar verður neikvætt.
Uppbygging skattkerfisins hefur veruleg áhrif á þróun ríkisútgjalda. Á meðan eitt kerfi kallar á síaukna skattheimtu og þar með aukin umsvif ríkisins hamlar annað gegn hækkandi sköttum. Stighækkandi tekjuskattur, þ.e. því hærri tekjur, því hærri hundraðshluta af launum þarf viðkomandi að greiða, er ávísun á aukna skattheimtu og þar með hærri ríkisútgjöld. Það er enginn innbyggður hemill á skattheimtuna og þar með ríkisútgjöldin. Flatur tekjuskattur – ein ákveðin prósenta óháð tekjum – hamlar hins vegar gegn útþenslu ríkisins enda er það pólitískt erfiðara fyrir skattaglaða stjórnmálamenn að hækka skattprósentuna sem allir þurfa að greiða. Þeir ná ekki að reka fleyg á milli skattgreiðenda með sama hætti og þeir geta ef tekjuskattur er stighækkandi. Auk þessa er flatur tekjuskattur ólíklegri til að hafa skaðleg áhrif á efnahagslífið en stighækkandi skattur sem dregur úr löngun einstaklinga til efnahagslegra umsvifa, þar sem afraksturinn verður hlutfallslega æ minni.
Áhrif á hagvöxt
Hvernig staðið er að skattlagningu hefur því bein áhrif á hagvöxt. Flöt, einföld og hófsöm skattlagning hefur jákvæð áhrif á efnahagslífið og hagvöxtur verður meiri en ella. Fyrir Íslendinga skiptir þetta gríðarlega miklu máli. Takist ekki að rífa upp hagvöxt hér á landi munu lífskjör taka litlum breytingum á komandi áratugum. Þannig mun það taka 70 ár að tvöfalda landsframleiðsluna ef hagvöxtur er að meðaltali 1% á ári. Takist okkur hins vegar að tryggja 3% vöxt efnahagslífsins mun það taka tæp 25 ár að tvöfalda íslenska hagkerfið og aðeins 18 ár ef hagvöxtur er að meðaltali 4%.
Af þessu sést hve miklu það skiptir fyrir almenning að hjól atvinnulífsins fari aftur af stað og hagvöxtur nái að festa sig í sessi. Þar skiptir hvert prósentustig gríðarlega miklu. Þetta er spurning um þróun lífskjara hér á landi.”