Samtök skattgreiðenda hafa fjallað um tillögu Einars K. Guðfinnssonar og fleiri þingmanna um að jafna rafmagnskostnað til húsahitunar milli landsvæða með skattlagningu á 90% neytenda (sjá einnig á skattgreidendur.blog.is). Ásgeir Ingvarsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, fjallar einnig um þetta í grein í Viðskiptablaði Morgunblaðsins fimmtudaginn 25. október sl.:

„Fyrri hluta vikunnar hefur netið logað út af fyrirhuguðum breytingum á lögum um niðurgreiðslu ríkisins á húshitunarkostnaði í sumum sveitum. Í umræðunni hafa heyrst ótal rök úr öllum áttum: sumir réttlæta styrkinn með því að það sé þjóðhagslega mikilvægt að styrkja byggð á sumum svæðum. Aðrir benda á að þó að húshitun sé dýrari á ákveðnum stöðum þá séu aðrir kostnaðarliðir heimilisins lægri. Enn aðrir taka þann pól í hæðina að auðlindir landsins séu sameiginlegar og líta svo á að styrkþegarnir fái að njóta þessara auðlinda á sanngjarnan hátt. Enginn skortur er síðan á hefðbundnum ríg milli sveitalubbanna annars vegar og latte-lepjandi stuttbuxnaguttanna í borginni hins vegar, með tilheyrandi gífuryrðum og skítkasti.

Eitt hefur þó ekki verið nefnt í þessu nýjasta rifrildi: hversu lögmæt er sú krafa að ríkið taki frá einum til að gefa öðrum?

Löglegur þjófnaður

Franski stjórnspekingurinn og hagfræðingurinn Frédéric Bastiat skrifaði um þetta fyrirbæri árið 1850, og eiga orð hans brýnt erindi við Íslendinga árið 2012:

Ásgeir Þ. Ingvarsson blaðamaður

„En hvernig þekkjum við löglegan þjófnað? Það er ekki svo flókið. Sjáðu hvort lögin taka frá sumum einstaklingum eitthvað sem tilheyrir þeim, og gefa öðrum sem það tilheyrir ekki. Sjáðu hvort lögin hygla einum borgara á kostnað annars, með því að fremja verknað sem borgarinn sjálfur gæti ekki framið án þess að gerast sekur um glæp.

Slík lög þarf að nema úr gildi án tafar, því þau eru ekki aðeins ill í sjálfu sér, heldur einnig frjór jarðvegur fyrir frekari illsku því lögin kalla á að svarað sé í sömu mynt. Ef slík lög – jafnvel bara eitt afmarkað tilfelli – eru ekki numin úr gildi munu þau dreifa úr sér, margfaldast og þróast í heilt kerfi.”  (lausleg þýðing.)

Ef íslensk stjórnmálaumræða er skoðuð sést að við erum löngu föst í þessum vítahring sem Bastiat varaði við. Við búum við kerfi þar sem tekið er frá öllum, og gefið til allra. Ef borgarbúar fjargviðrast yfir húshitunarstyrkjum, landbúnaðargreiðslum, eða ójafnri skiptingu fiskveiðikvóta æsast íbúar landsbyggðarinnar yfir Hörpu-bruðli eða ójöfnu aðgengi skattgreiðenda að dýrum þjónustustofnunum á SV-horninu. Báðir aðilar í deilunni telja sig hlunnfarna á alla mögulega vegu og þvingaða til að halda hinum hópnum uppi.

Þeir sem hæst kalla eftir gjöfum frá ríkinu ættu að hafa það hugfast að ríkið galdrar ekki verðmæti út úr engu og það sem ríkið gefur einum hefur verið tekið af einhverjum öðrum með valdi. Þeir sem krefjast gjafanna ættu að íhuga það vel og vandlega hversu mikla heimtingu þeir eiga á að aðrir íbúar landsins bæti þeim upp fyrir að eitthvað er svona eða hinsegin. Þætti tilfærslan réttmæt, siðleg og lögleg ef ríkið væri ekki milliliður?

Þeir sem telja sig vera að bera samlanda sína í öðrum landsfjórðungum á herðunum hljóta svo vitaskuld að kalla á minni ríkisafskipti og aukið frelsi. Hvernig væri að fólk bæri sjálft allan kostnaðinn (og ávinninginn) af því hvar það kýs að búa og við hvað það kýs að starfa? Ef eitthvað er að marka umræðuna úr báðum þrasfylkingunum þessa síðustu daga myndi þar með renna upp mikið gullaldarskeið bæði í borg og í dreifbýli.”