Arnar Sigurðsson, fjárfestir, hefur ítrekað vakið athygli á vanda Íbúðlánasjóðs, en það var fyrst í lok árs 2012, sem fjölmiðlar almennt fóru að fjalla um risavaxinn vanda sjóðsins. Búið er að plástra stöðu hans lítilsháttar, en fyrirsjáanlegt að skattgreiðendur verði í framtíðinni látnir axla miklar byrgðar af slælegum rekstri sjóðsins.

Arnar skrifaði í Morgunblaðinu 31. maí 2012 þessa grein um Íbúðalánasjóð:

„Ronald Reagan sagði eitt sinn að níu hræðilegustu orðin í enskri tungu væru „I‘m from the government and I‘m here to help.“ Líklega eiga þau orð hvergi betur við en með „hjálp“ þá sem Íbúðalánasjóður veitir Íslendingum.

Viðskiptablaðið hafði nýverið eftir nýjasta fjármálaráðherranum, Oddnýju Harðardóttur, undarlega frétt sem lítið fór fyrir, þess efnis að „Ekki væri búið að ákveða hvenær Íbúðalánasjóði verður lagt til aukafé, sem sjóðurinn þarf á að halda.“ Á heimasíðu sjóðsins kemur hinsvegar fram að hann „er fjárhagslega sjálfstæður og stendur undir lánveitingum og rekstri með eigin tekjum“.

Framangreind lýsing um sjálfstæði er því ámóta trúverðug og að forsetaframboð Þóru og Svavars sé óháð Fréttastofu RÚV, svo dæmi sé tekið af handahófi.

Ef svonefndur „tilgangur“ sjóðsins er skoðaður kemur í ljós að starfsmenn hans hyggjast „stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast og leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.“

Arnar Sigurðsson, mynd úr Viðskiptablaðinu

Leið Íbúðalánasjóðs til heljar er vitaskuld vörðuð góðum ásetningi eins og „öryggi, jafnrétti, möguleika og viðráðanleg kjör“. Íbúðalánasjóður er hinsvegar ekkert annað en millilag, n.k. heildsala sem tekur peninga að láni og lánar út aftur, rétt eins og venjulegir bankar gera. Ef vaxtaþóknun sjóðsins er skoðuð mætti ætla að reksturinn ætti að vera vel „viðráðanlegur“ fyrir bankamenn hins opinbera en svo er hins vegar ekki. Vextir þeir sem sjóðurinn borgar eru u.þ.b. 2% en útlánin, þ.e. hin (ó)viðráðanlegu kjör“ til almennings eru hinsvegar 4,7%. Vaxtamunurinn samsvarar því ekki minna en 100% álagningu!

Þrátt fyrir vaxtaokrið er rekstur sjóðsins hinsvegar svo galinn að skattgreiðendur þurfa að leggja sjóðnum til tugi milljarða að auki. Verðtryggð útlán sem sjóðurinn veitir almenningi bera verðbólguáhættu, sem almenningur hefur enga forsendu til að meta, í ofanálag við hæstu raunvexti í heimi. Ein afleiðing er að vanskil við sjóðinn nema nú hvorki meira né minna en 160 milljörðum!

Þetta lánaform kennir sjóðurinn við „öryggi“ en lætur þess ógetið að um öryggi fjármagnseigenda sem lána sjóðnum er að ræða. Þegar öllu er á botninn hvolft kemur í ljós að Íbúðalánasjóður er slæmur kostur fyrir lántakendur en afleitur kostur fyrir skattgreiðendur en reksturinn einn og sér kostar yfir 2 milljarða á ári.

Sirkus fáránleikans nær þó fyrst hámarki þegar framkvæmd markmiðsins um að auðvelda fólki að kaupa fasteignir er skoðað. Sjóðurinn berst hatramlega gegn lækkun fasteigna- og leiguverðs með því að kaupa sjálfur u.þ.b. 2000 fasteignir þeirra sem ekki hafa staðið í skilum. Markmiðið með þessum uppkaupum er að halda uppi fasteignaverði og gengur sjóðurinn svo langt að leigja ekki út íbúðir á þeim stöðum þar sem „offramboð“ gæti verið til staðar að mati spákaupmanna sjóðsins.

Í þessu sambandi er rétt að benda á að fasteignir vega um þriðjung í vísitölu neysluverðs og að hver prósenta í verðbólgu kostar almenning, beint og óbeint um 20 milljarða á ári. Gera má ráð fyrir að uppgreiðslur hjá sjóðnum aukist. Það kemur sjóðnum afar illa því til að tryggja velferð fjármagnseigenda er sjóðnum óheimilt að uppgreiða sín lán samsvarandi. Varlega áætlað þyrfti um 100 milljarða til að geta staðið straum af því misræmi sem framundan er.

Íbúðalánasjóður hefur nú þegar siglt á ísjaka eins og Titanic forðum. Almenningur getur treyst á að stjórnmálamenn munu fumlaust endurraða þilfarsstólunum eins og sést í hinni nýju fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar þar sem áætlað er að leggja sjóðnum til 2 milljarða í eigið fé en breyta engu að því er starfsemina varðar.”