Fjallað var um Samtök skattgreiðenda í leiðara Morgunblaðsins þann 11. júní 2012. Leiðarinn hljóðar svo:
Segja má að ekki sé seinna vænna að hér á landi taki til starfa samtök skattgreiðenda, en frá því var greint í Morgunblaðinu á laugardag að slík samtök hefðu verið stofnuð. Skafti Harðarson, einn forsvarsmanna Samtaka skattgreiðenda, segir að ætlunin sé að samtökin beiti sér fyrir „betri ráðstöfun ríkisfjár, lægri skattheimtu, sanngjarnari og gegnsærri skattheimtu og síðast en ekki síst að beita okkur gegn reglugerðarveldi ríkisins“.
Félagsskapur af þessu tagi er starfandi víða um heim og veitir hinu opinbera mikilvægt aðhald. Um þessar mundir er sérstaklega brýn þörf fyrir slíkt félag hér á landi þegar horft er til þess hvert viðhorf ríkisvaldsins og flestra sveitarfélaganna er til skattheimtu.
Sveitarfélögin gleymast stundum í þessu sambandi, en þau hafa orðið æ umsvifameiri á undanförnum árum og taka til að mynda til sín um helming staðgreiðslu einstaklinga þegar tillit hefur verið tekið til persónufrádráttarins. Mörg þeirra hafa reist sér hurðarás um öxl og setja útsvarið þess vegna í efstu mörk og jafnvel rúmlega það þau sem í mestar ógöngur eru komin.
Önnur virðast telja sjálfsagt að nýta sér allt það svigrúm sem lög leyfa til að hækka skatta í stað þess að líta á það sem keppikefli að íbúarnir búi við sem lægstar álögur. Það er til að mynda af sem áður var að Reykjavíkurborg hafi skattlagningu sína við lægstu leyfilegu mörk, það tímabil leið undir lok þegar vinstrimenn náðu völdum í borginni og tókst að sitja þar óslitið í nokkur kjörtímabil.
Sambærileg staða er nú uppi hjá ríkinu. Eftir að árangur hafði náðst í lækkun skatta með því að byrðum var létt af almenningi og atvinnulífið gert samkeppnishæfara komust að völdum þeir sem telja að háir skattar séu í sjálfum sér æskilegir. Þeim er það sérstakt kappsmál að innheimta eins mikla skatta og mögulegt er og vilja skilja eins lítið eftir hjá fólki og fyrirtækjum og nokkur kostur er.
Almenningur finnur þetta vel um hver mánaðamót og í hverri ferð út í matvöruverslun eða á bensínstöð. Fjárfestar og atvinnulíf finna þetta einnig og svo finnur almenningur aftur fyrir því þegar atvinnulífið koðnar niður vegna skattheimtu.
Ágætt dæmi um þetta viðhorf vinstrimanna til skattheimtu birtist nú í umræðunni um veiðigjöld, en þar er keppst við að leggja svo miklar álögur á fyrirtækin að þau rétt lifi af. Og ákafi stjórnvalda í að hækka skatta er meira að segja svo mikill að skattheimtan á að vera mun meiri en fyrirtækin þola með þeim afleiðingum að stór hluti þeirra er í mikilli hættu, með tilheyrandi afleiðingum fyrir almenning og þjóðfélagið allt.
Þessi afstaða vinstrimanna, að best sé að hafa alla skatta eins háa og mögulegt er, hefur þær afleiðingar að hjól efnahagslífsins snúast hægar og stærri hluti þess leitar undir yfirborðið. Þess vegna verða háu skattarnir gjarnan til þess að minna innheimtist en með lægri sköttum og allir verða verr settir en áður.
En hugmyndin um háu skattana er líka röng vegna þess að hið opinbera á að leitast við að gera það sem það þarf að gera fyrir sem minnst fé og skilja sem mest eftir hjá almenningi. Hið opinbera á ekki að taka skatta af fólki komist það hjá því. Þetta er sú einfalda staðreynd sem vinstristjórnir átta sig ekki á.