Grein eftir Arnar Sigurðsson, fjárfesti, sem upphaflega birtist í Viðskiptablaðinu 19. september 2012, og er hér endurbirt með leyfi höfundar. Viðskiptablaðið hefur ítrekað fjallað um vanda Íbúðalánasjóðs, í fréttum, leiðara og umfjöllun undir nafni Óðins.
„Albert Einstein skilgreindi geðveilu sem háttalag þar sem sama aðgerð væri endurtekinn í sífellu í von um breytta niðurstöðu. Ef áætlanir stjórnvalda hér á landi ná fram að ganga um að sökkva 14,5 milljörðum af almannafé í óstöðvandi fjárþörf Íbúðalánasjóðs, á eftir 30 milljörðum sem brunnið hafa upp á síðustu tveimur árum, mætti ætla að einnhverskonar veila gangi laus í íslenska stjórnarráðinu. Sögnin að ráða hefur m.a. þá merkingu að stjórna og að hafa ráð tiltæk í hugtakinu úrræði ef vanda ber að höndum. Ráða-menn standa undir hvorugri skilgreiningunni ef einu úrræðin eru að ausa almannafé á vandamál og hækka skatta í stað þess að fyrirbyggja framtíðarvandamál sem þó hefur verið varað við árum saman. Löngu hefur verið vitað í hvað stefndi með Íbúðalánasjóð sem talinn er vera rekinn með ríkisábyrgð. Sem betur fer er hinsvegar hvergi til stafkrókur í lögum frá Alþingi þess efnis að skuldbindingar sjóðsins séu á ábyrgð ríkissjóðs enda hefur sjóðurinn aldrei greitt lögbundið gjald vegna ríkisábyrgðar. Í “Skýrslu nefndar um endurskoðun ríkisábyrgða og tillögur til breytinga” frá árinu 1997 kemur reyndar fram það: “…sjónarmið að ef til vill ættu aðilar í þessari stöðu að greiða ábyrgðargjald til ríkissjóðs vegna skuldbindinga sinna…… Meirihluti nefndarinnar leit hinsvegar svo á að slíkt kæmi ekki til greina þar sem með því væri óbeint verið að viðurkenna ríkisábyrgð auk þess sem grundvöll til slíkrar innheimtu skorti, væri ekki um ótvíræða ríkisábyrgð að ræða”
Einu gildir hvort vænhæfni sérfræðinga er um að kenna eða hvort illmögulegt sé að rýna í framtíðina, niðurstaðan er sú sama að ófarir skattgreiðenda virðast alltaf óvæntar. Þrátt fyrir vandlega úttekt árið 2006 sem unnin var af hópi “sérfræðinga” komst Ríkisendurskoðun að þeirri niðurstöðu að:
“Ólíklegt er að eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs stefni niður fyrir áskilin hlutföll í fyrirsjáanlegri framtíð. Vegna þessa er líka ólíklegt að reyna muni á ríkisábyrgð á skuldbindingum sjóðsins”
Að sögn sjóðsins er talið að leiða megi almennt af íslenskri lögskipan að Íbúðalánasjóður sem stofnun í eigu ríkisins njóti ótakmarkaðrar ábyrgðar, t.d. sé kveðið á um það í gjaldþrotalögum að sjóðurinn geti ekki orðið gjaldþrota. Þannig megi ætla að ríkissjóður sem eigandi beri ótakmarkaða ábyrgð á sjóðnum.
Þessi tilvísun til gjalþrotalaganna stenst hisvegar ekki því sérstaklega er kveðið á um í 5. gr. að ekki sé hægt að taka stofnun til gjaldþrotaskipta ef ríkið ábyrgist skuldir.
Með lögum um ríkisábyrgðir er ekki almenn heimild til slíkrar afleiddar ríkisábyrgðar heldur einmitt kveðið á um að sérstaka lagaheimild þurfi til að virkja ríkisábyrgð, 1tl. 3. gr. Í lögum um húsnæðismál nr. 44/1998 sem taka til ÍLS er ekkert vikið að ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins. Jafnframt er það ekki meginregla ísl. réttar að ríkið sé ábyrgt fyrir skuldbindingum sjálfstæðra stofnana. Á þetta hefur ekki reynt þannig að augljóslega getur ekki getur verið um meginreglu að ræða.
Samkvæmt lögum 121/1997 um ríkisábyrgðir er skýrt kveðið á um að “Ríkissjóður má aldrei takast á hendur ábyrgðarskuldbindingar, nema heimild sé veitt til þess í lögum”
Samkvæmt áliti Ríkisendurskoðunar frá því í janúar á þessu ári segir m.a. að”..stjórnarskráin krefst þess í reynd að lagaheimild sé fyrir ríkisábyrgðum og annars konar skuldbindingum ríkisins, eins og gildir um lántökur. Hefur framkvæmdin enda verið með þeim hætti.” Engu að síður kemst stofnunin að þeirri ályktun í úttekt á Íbúðalánasjóði að ríkisábyrgð tryggi lánveitendum sjóðsins fullar endurheimtur.
Það er því síður en svo ljóst að ófrávikjanleg ríkisábyrgð hvíli á öllum skuldbindingum sjóðsins og skiptir engu þó starfsmenn hans hafi hingað til staðið í annari trú og sett slík ákvæði inn í skráningarlýsingu skuldabréfa sjóðsins. Embættismenn geta aldrei gefið út ríkisábyrgð, einungis Alþingi. Óljóst orðalag í C hluta fjárlaga um ríkisábyrgðir byggt á útgáfuáætlun sjóðsins hverju sinni geta vart kallast skýr ríkisábyrgð á t.d. skuldbindingu um að ekki megi greiða upp útgefin skuldabréf.
Eins og áður hefur verið vikið að er rekstur Íbúðalánasjóðs slæmur kostur fyrir lántakendur því vextir sjóðsins eru þeir hæstu í heimi en afleitur kostur fyrir skattgreiðendur sem þurfa að dæla í hítina tugum milljarða til að halda stofnuninni ofanjarðar. En hvað er til ráða?
Með því að dæla stöðugt almannafé í Íbúðalánasjóð er í raun verið að tryggja lánveitendum íbúðalánasjóðs, nokkurs konar “áhyggjulaust ævikvöld” með hámarks arðsemi af glannalegri útlánastarfsemi sjóðsins. Nærtækast væri að loka fyrir ný útlán frá sjóðnum í núverandi mynd og kanna með hvaða hætti, lánveitendur tækju á sig hluta af neikvæðri afkomu sjóðsins. Fjárfestar myndu þannig uppskera eins og til hefur verið sáð með tíð og tíma þar til skuldabréf sjóðsins verða komin á gjalddaga árið 2044. Með því að taka af allan vafa um ríkisábyrgð, myndi skuldastaða ríkissjóðs batna um hátt í 1.000 milljarða og lánshæfismat ríkissjóðs batna.
Raunsætt verður líklega að líta sem svo á að þrátt fyrir hrakfarirnar með Íbúðalánasjóð og þá staðreynd að flestir lántakendur kvarti undan hinu verðtryggða útlánakerfi hins opinbera, mun pólitískur rétttrúnaður tryggja að áfram verði ástundaður ríkisrekstur á þessu sviði. Nærtækt væri að stofna nýjan heildsölubanka án ríkisábyrgðar sem þjónusta myndi bankastofnanir sem afgreiddu lánin gegn fyrsta veðrétti en framseldu svo veð í útlánasöfnum sínum til hins nýja heildsölubanka. Þar með yrði líka komist hjá brotum á EES samningnum en núverandi rekstur Íbúðalánasjóðs er skýrt samkeppnisbrot samkvæmt niðurstöðu ESA. Hugsanlega yrði eigendum þeirra skuldabréfa sem sjóðurinn hefur gefið út boðið að skipta út eldri bréfum fyrir hin nýju á lægri kröfu eða sæta uppgreiðslu ella miðað við nafnvexti bréfana 3,75%. Hér væri því um afar áþekka aðgerð að ræða og þegar húsbréfakerfinu var breytt í íbúðabréf.
Miðað við ávöxtunarkröfu á markaði í dag mætti ætla að nýr heildsölubanki myndi geta boðið mun hagstæðari lán en áður og því ætti breytingin að ganga vel í lántakendur auk þess sem girt væri fyrir tugmilljarða meðgjöf með sjóðnum í framtíðinni.
Vissulega munu hagsmunaaðilar reka upp ramakvein enda hafa núverandi skuldabréf verið gulls ígildi fyrir fjárfesta árum saman og tryggt mönnum auðvelda ávöxtun. Um það bil 70% af verðtryggðum skuldabréfum íbúðalánasjoðs eru í eigu lífeyrissjóða sem líklega myndu ekki tapa á breytingunni. Það littla tap sem slíkir aðilar myndu þurfa að taka á sig með framangreindri breytingu væri þó ekki nema brot af þeirri áhyggjulausu ávöxtun sem þeir hafa fengið á silfurfati á undangengnum árum.
Samandregið hefðu ofangreindar breytingar eftirfarandi afleiðingar í för með sér:
- Tugmilljarða sparnaður fyrir skattgreiðendur.
- Tæplega 1000M minni skuldabyrði á efnahagsreikningi ríkissjóðs (vegna óljósrar ábyrgðar).
- Bætt lánshæfismat ríkissjóðs.
- Vaxtalækkun á nýjum fasteignalánum.
- Samkeppnisárekstrar milli ÍLS og viðskiptabanka úr sögunni sem og kærumál vegna brota á EES samningnum.
- Góður grunnur til að minnka vægi verðtryggingar.
- Svigrúm fyrir lægri stýrivexti og betra miðlunarferli peningastefnu Seðlabankans.
- Hefðbundin útlánastarfsemi fjármálafyrirtækja yrði með eðlilegri og líklega hagkvæmari hætti fyrir neytendur.
Verðtryggð velferðarstefna fjármagnseigenda á kostnað skattgreiðenda hlýtur að vera komin á leiðaranda.”