Blogg Skafta Harðarsonar af Eyjunni 12. júní 2012 um sérkennileg fasteignaumsvif Reykjavíkurborgar:

Reykjavíkurborg ákvað í síðustu viku að kaupa Alliance húsið að Grandagarði 2 á heilar 340 miljónir króna. Þessi gjörningur á kostnað skattgreiðenda er nánast óskiljanlegur. Eigandi hússins hafði gert samning við Sögusagnið um sölu þess, en Reykjavíkurborg gekk inn í samninginn og leigir síðan Sögusafninu til 25 ára. Hvers vegna að skipta sér með þessum hætti af sölu hússins? Og auk þess ætlar Borgin, rétt eins og það sé eitthvert fasteignafélag, að gera húsið upp að utan. Allt í boði skattgreiðenda.

Þá hyggst Reykjavíkurborg gefa Rithöfundasambandinu Gunnarshús af litlu tilefni. Ef til vill er skynsamlegt að borgin losi sig við Gunnarshús, en hvers vegna var það ekki boðið til sölu með kvöðum um varðveislu þess? Er sjálfsagt að gefa Fámennum hagsmunasamtökum eignir borgarinnar?

Hvers vegna fengu Reykavískir skattgreiðendur ekki að greiða atkvæði um þessa húsagjörninga? Er aðeins heimilt að efna til íbúakosningu um það sem engu máli skiptir? Hvort mála skuli frekar vegasaltið eða róluna í ár?

En það er gott til þess að vita að fyrir húsagjöfinni og húsakaupunum hafði þegar verið safnað með hærri sköttum, sameiningu skóla, fleiri lokuðum skipulagsdögum á leikskólum borgarinnar, sparnaði við gatnagerð og hreinsun í borginni.