Grein eftir Óla Björn Kárason, blaðamann. Áður birt í Morgunblaðinu og á vef Óla, T24.is.
„Íslenskir stjórnmálaflokkar eru á framfæri hins opinbera. Frá árinu 2007 hafa íslenskir skattgreiðendur verið látnir standa undir a.m.k. 2.300 milljónum króna vegna starfsemi stjórnmálaflokka. Fyrir sömu fjárhæð væri hægt að reka Heilbrigðisstofnunina Vestmannaeyjum í rúmlega þrjú ár, Menntaskólann á Akureyri í tæp fimm ár eða Landgræðslu ríkisins í fjögur ár.
Samkvæmt yfirliti Ríkisendurskoðunar fengu þeir stjórnmálaflokkar sem átt hafa fulltrúa á Alþingi liðlega tvö þúsund milljónir króna úr ríkissjóði frá árinu 2007 til 2011. Þetta jafngildir því að hver einstaklingur með atkvæðisrétt í alþingiskosningunum 2009, hafi þurft að greiða um 9.900 krónur. Þessu til viðbótar fengu stjórnmálaflokkarnir yfir 220 milljónir króna í styrki frá sveitarfélögunum á árunum 2007 til 2010 samkvæmt ársreikningum flokkanna.
Alþingi samþykkti í desember 2006 lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda [nr. 162/2006]. Með lögunum voru stjórnmálaflokkar settir á jötu ríkisins, þó þeir hafi fram að þeim tíma fengið töluverðan stuðning frá ríkinu.
Í 3. gr. laganna segir að árlega skuli „úthluta fé úr ríkissjóði til starfsemi stjórnmálasamtaka sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn á Alþingi eða hlotið hafa a.m.k. 2,5% atkvæða í næstliðnum alþingiskosningum samkvæmt ákvörðun á fjárlögum hverju sinni“. Hver stjórnmálaflokkur fær greitt í hlutfalli við atkvæðamagn. Því meira fylgi því hærri er ríkisstyrkurinn. Þá geta stjórnmálasamtök sem bjóða fram í öllum kjördæmum sótt um sérstakan styrk úr ríkissjóði.
Auk þessa er árlega veitt fé úr ríkissjóði til starfsemi þingflokka á Alþingi. Greidd er jöfn fjárhæð fyrir hvern þingmann. Þá fá flokkar í stjórnarandstöðu sérstaka greiðslu.
Lögin skylda sveitarfélög með fleiri en 500 íbúa til að styrkja stjórnmálasamtök sem hafa fengið a.m.k. einn mann kjörinn í sveitarstjórn eða a.m.k. 5% atkvæða í kosningum.
Dregið úr áhrifum
Lögin setja stjórnmálaflokkum miklar skorður. Komið er í veg fyrir að flokkar afli sér fjárhagsstuðnings með sama hætti og áður, en þess í stað er þeim tryggður aðgangur að sameiginlegum sjóði landsmanna – ríkiskassanum og sveitarsjóðum.
Ákvæði laganna styrkja stöðu starfandi stjórnmálaflokka en gera nýjum flokkum erfiðara fyrir og jafnvel útiloka ný stjórnmálasamtök. Um leið eru stjórnmálaflokkarnir (eða réttara sagt forystumenn þeirra) gerðir óháðari eigin flokksmönnum. Með öðrum orðum; dregið er úr áhrifum almennra flokksmanna.
Lögin ganga gegn hugmyndum um skoðanafrelsi. Kjósandi sem berst gegn Sjálfstæðisflokknum er skyldaður til að greiða til flokksins og fjármagna starfsemi hans. Kjósandi Sjálfstæðisflokksins, sem telur hugmyndafræði Vinstri grænna hættulega, er einnig gert að styrkja starfsemi VG. Það er eitthvað öfugsnúið við það að neyða mann til að styrkja félagsskap sem gengur gegn öllu því sem hann trúir. Þeir fjölmörgu sem nú standa að stofnun nýrra stjórnmálasamtaka sem stefna að framboði til Alþingis, eru með lögunum neyddir til að tryggja fjárhag þeirra flokka sem eru þegar með fulltrúa á þingi.
Vörn valdsins
Ríkisrekstur stjórnmálanna er mikilvæg vörn valdsins. Hér gildir sama lögmálið og á markaði. Einkarekin fyrirtæki eiga litla möguleika í samkeppni við ofurvald ríkisins sem getur stöðugt gengið í vasa skattgreiðenda. Ríkisrekstur stjórnmálanna kemur í veg fyrir eða torveldar að til verði ný samtök sem skora sitjandi stjórnmálaflokka á hólm. Og þegar það tekst að stofna ný stjórnmálasamtök, er staðan ójöfn – jafnvel óvinnandi.
Stjórnmálaflokkar keppa á markaði hugmynda. Fyrir frjálst samfélag er lífsnauðsynlegt að sú samkeppni sé heiðarleg og sanngjörn. Lög um fjármál stjórnmálasamtaka ganga þvert á jafnræði. En fáir eru til að gagnrýna ríkjandi fyrirkomulag. Mér segir svo hugur að eitthvað yrði sagt ef svipuð staða væri uppi í atvinnulífinu. Tökum dæmi:
Fjórir aðilar skipta með sér matvörumarkaðinum. Þeir keppa sín á milli en árlega fá þeir greiddan sérstakan styrk frá skattgreiðendum. Styrkurinn skiptist á milli keppinautanna í réttu hlutfalli við markaðshlutdeild. Því stærri sem hlutdeildin er, því hærri er styrkurinn.
Ungur fullhugi, með hugmyndir um nýja þjónustu á lægra verði, vill hasla sér völl í samkeppninni við þá sem fyrir eru á markaði. Vegna ríkisstyrkja er nær vonlaust að fara í samkeppnina – til þess er forgjöf þeirra sem fyrir eru á markaði of mikil. En í æðum hans rennur kaupmannsblóð og hann vill starfa við að selja almenningi matvöru. Hann á þann eina kost að ráða sig sem verslunarstjóra hjá einni matvörukeðjunni og sætta sig við það skipulag og starfshætti sem þar tíðkast. Afleiðingin er sú að neytendur fá aldrei að njóta nýrrar þjónustu eða lægra verðs. Þeir fjórir matvörurisar sem fyrir eru þurfa heldur ekki að huga að því bjóða upp á nýjungar – þeir eru áhyggjulausir í vernduðu umhverfi.
Hið sama gerist þegar stjórnmálastarfsemi er sett á jötu hins opinbera. Samkeppni hugmynda er takmörkuð og kjósendur sitja uppi með sárt enni.”