Vefþjóðviljinn (www.andriki.is) fjallar um Samtökin í pistli þann 19. júlí:
Fimmtudagur 19. júlí 2012
Vefþjóðviljinn 201. tbl. 16. árg.
Björn Bjarnason ræddi hinn 11. júlí við Skafta Harðarson formann Samtaka skattgreiðenda í þætti sínum á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Samtök skattgreiðenda voru stofnuð í þeim tilgangi að veita stjórnmálamönnum aðhald og miðla upplýsingum um skattheimtu og rót hennar, útgjöld ríkis og sveitarfélaga. Á vefnum skattgreidendur.is geta menn kynnt sér starfsemi samtakanna. Skafti lagði áherslu á þau praktísku rök fyrir alla – þar sem talið þá stjórnmálamenn sem vilja hafa nægt fé í öll góðu málin sín – að of háir skattar geta dregið úr framtakssemi manna og á endanum skatttekjum hins opinbera. Það sé því öllum í hag að stilla sköttum í hóf. Jafnframt fór hann yfir athyglisverðan árangur samtaka sænskra skattgreiðenda.
Skafti ræddi einnig um hina ósýnilegu skattlagningu, þar sem fé er tekið af fólki með reglugerðum og tilskipunum. Hann nefndi dæmi af nýrri byggingareglugerð þar sem meðal annars er kveðið á um að öll þriggja hæða fjölbýlishús skuli hafa lyftu og alls kyns nýjar kröfur eru gerðar um stærð og tegundir herbergja. Skafti segir að í raun sé verið að fara fram á að allt húsnæði henti öllum og að ekki sé gert ráð fyrir að fólk geti flutt sig milli húsa eftir efnum og aðstæðum. Lokað er á möguleika ungs fólks að eignast ódýra fyrstu íbúð í lyftulausu húsu. Í þessu sambandi hlýtur að vakna sú spurning hvers fólk á efri hæð í tvíbýlishúsum eigi að gjalda. Hvers vegna drógu stjórnmálamenn mörkin við þriggja hæða hús þegar þeir skipuðu fyrir um lyftur? Er maður sem kemst ekki upp um þrjár hæðir í stiga líklegur til að komast upp um tvær?