Ýmis samtök skattgreiðenda hafa tekið upp baráttu fyrir flötum skatti. Ásgeir Ingvarsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, fjallar hér aðeins um ýmsa agnúa á íslenska skattkerfinu, niðurgreiðslu á skuldsetningu o.fl., í grein í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 5. júlí 2012. Hann spyr í lokin hvort flatur skattur væri ekki betri valkostur:

Stórvarasamt samspil skatta og vaxtabóta

Háir skattar á laun eru til þess fallnir að letja fólk til að vinna. Í dag er jaðarskattur á útborguð laun íslenskra launamanna allt að 46,28%. Þegar komið er á jaðarinn er því afskaplega lítill hvati til að vinna aukadag í mánuði enda vill hið opinbera taka til sín um helming launanna. Þetta er ekki nógu gott, sérstaklega í árferði eins og nú, enda einhver besta leiðin út úr kreppu og skuldum að vinna meira og skapa aukin verðmæti.

Háir skattar á laun eru hins vegar aðeins ein hliðin á peningnum. Rétt er að endurlífga umræðu frá því fyrr á árinu, um hvernig íslenska vaxtabótakerfið verkar letjandi á skattgreiðendur að mynda eign í heimilum sínum. Vaxtabótakerfið á sína sök á því lánalestarslysi sem Ísland er í dag.

Borgað fyrir að skulda

Vaxtabætur nema á þessu ári að hámarki 400.000 kr. hjá einhleypingi og 600.000 kr. hjá hjónum. Við bætist síðan sérstök vaxtaniðurgreiðsla að hámarki 200.000 kr. hjá einhleypingi og 300.000 kr. hjá hjónum.

Þessar greiðslur byrja að skerðast bæði þegar tekjur fara upp, þegar skuldir fara niður og þegar eign vex.

Það þarf alls ekki að eiga nein ósköp til að missa allar vaxtabætur. Þeir sem dansa eftir kerfinu reyna að gæta þess að nettóeign fari ekki yfir 4 milljónir, eða 6,5 milljónir ef um er að ræða par. Sérstaka vaxtaniðurgreiðslan umbunar einstaklingum fyrir að skulda allt upp í 33 milljónir, og pörum allt að 50 milljónir.

Það er afskaplega slæmt þegar hið opinbera býr til hvata til að skulda, og letur fólk til að mynda eign. Síðustu árin ættu heldur betur að hafa kennt Íslendingum hvað skuldir eru hagkerfinu hættulegar: skuldir eiga það til að blása út, sveiflast og stökkbreytast. Skuld er kostnaður, skuld er óöryggi. Eign er hins vegar öryggi, eign ber ávöxt, eign skapar tækifæri.

Enn verra er svo kannski að svona stórar endurgreiðslufjárhæðir og háir jaðarskattar geta gert kerfið mjög ósanngjarnt. Fyrir þá sem fá fullar vaxtabætur og vaxtaniðurgreiðslur er uppgjörið við hið opinbera töluvert minna óþægilegt en fyrir hina, sem einhverra hluta vegna falla ekki að því móti sem vel meinandi, góðhjörtuð og alvitur stjórnvöld höfðu í huga. Það er ekkert grín að fá lágmarksbætur og borga hámarksgjöld.

Fróðlegt er að reikna hvernig það gæti komið út ef við einfölduðum kerfið, settum á eina flata, lægri skattprósentu og tækjum burt „tekjuliði” eins og persónuafslátt og bætur vegna fasteignaskulda.

Væri flatur 17% skattur betri?

Meðaljóninn í síðustu launakönnun VR er með árleg heildarlaun um 5,3 milljónir. Ef persónuafsláttur og hámarks vaxtabætur og -niðurgreiðslur eru dregin frá tekjuskatti og útsvari endar meðaljóninn á að greiða hinu opinbera rösklega 900 þús. yfir árið.

Meðaljóninn í dæminu okkar væri því alveg jafn vel staddur með þetta 17% flatan launaskatt, enga afslætti og bætur.

Nema hvað nú hefði hann miklu sterkari hvata til að bæta við sig vinnu, búa til verðmæti, borga niður skuldir og skapa eign.