Grein þessi eftir Arnar Sigurðsson, fjáfesti, birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. nóvember 2012. Grein sem vísað er til eftir Sigríði Andersen má finna á heimsíðu Sigríðar, www.sigridurandersen.is, en upphaflega birtust greinar hennar í Fréttablaðinu 8. nóvember og 13. nóvember. Grein Arnars er hér endurbirt með leyfi höfundar.
„Nýverið birti einn af frambærilegri frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins, Sigríður Andersen, grein undir fyrirsögninni „Jóhönnulánin“ (http://www.sigridurandersen.is/site/?p=713). Sigríður bendir réttilega á þá hryggilegu staðreynd að þegar öllum mátti ljóst vera að framundan væri djúp verðleiðrétting á fasteignum og gengi krónunnar með tilheyrandi verðbólguskoti um mitt ár 2008 greip þáverandi félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, til þess að auðvelda grunlausum að steypa sér í skuldafen hjá Íbúðalánasjóði. Því miður eru hins vegar fleiri sorglegar hliðar á inngripum stjórnmálamanna á fjármálamarkaði sem byggjast á „einföldum kosningaskilaboðum“ sem sneydd eru allri grunnhugsun. Ef vaxta- og húsaleigubætur gætu gengið upp í hagfræðilegum skilningi væri full ástæða til að taka upp Nóbelsverðlaun í greininni og veita þau fyrstu til Íslands.
Hér á landi er rekin hávaxtastefna sem ætlað hefur verið það vafasama hlutverk að halda aftur af kaupgleði almennings. Til að milda þá þensluskerðingu dælir hins vegar ríkið um þriðjungi vaxtakostnaðar heimilanna aftur til baka! Eftir sitja fyrirtækin í landinu með háa vaxtabyrði sem heldur aftur af atvinnuuppbyggingu. Til að fjármagna vaxtabæturnar gefur ríkið svo út skuldabréf sem aftur eykur eftirspurn eftir fjármagni sem einnig stuðlar að hærra vaxtastigi. Önnur vaxtahringekja fáránleikans eru s.k. húsaleigubætur. Eins og flestum ætti að vera ljóst ræðst húsaleiga af framboði og eftirspurn auk vaxtastigs. Húsaleigubætur gera ekkert annað en að valda aukinni eftirspurn í húsnæði og þar með hækkun á húsaleigu. Afleiðingin er að hinar rangnefndu „bætur“ renna til leigusala en ekki leigutaka eins og að var stefnt. Góður ásetningur stjórnmálamanna er ekki einungis til ófarnaðar fyrir þá sem njóta eiga því vaxtahringekjurnar eru jafnframt hrikalegur kostnaður fyrir skattgreiðendur.
Eins og margoft hefur verið bent á er Íbúðalánasjóður eins og sjálfsmorðssprengjuvesti á íslensku efnahagslífi. Sjóðurinn er afleitur valkostur fyrir lántakendur, með hæstu raunvexti á byggðu bóli og því algerlega óskiljanlegt hvers vegna starfseminni er haldið áfram. Þrátt fyrir vaxtaokrið hafa skattgreiðendur einnig þurft að leggja sjóðnum nú þegar til meðgjöf sem nemur andvirði útrásarhallarinnar Hörpu og furðuhljótt hefur verið um. Nú virðist hins vegar vanta vel á annað hundrað milljarða til að sjóðurinn geti staðið í skilum. Meðvirkir stjórnmálamenn allra flokka virðast ætla að taka á því vandamáli af svipaðri festu og skuldavanda Orkuveitunnar á sínum tíma og gott ef sumir myndu ekki bara vilja að sjóðurinn borgaði út arð til eiganda síns sem n.k. lýtaaðgerð á ríkisreikningnum að ekki sé nú minnst á þá hugmynd að hinn gjaldþrota sjóður geti greitt úr skuldavanda heimilanna!
Stundum er sagt að Íslendingar þurfi ráðamenn með kjark og þor til að taka á aðsteðjandi vanda. Engar slíkar forsendur þarf til að taka á vanda Íbúðalánasjóðs, einungis lítilsháttar skynsemi. Loka þarf sjóðnum í núverandi mynd með því að setja hann í hefðbundna slitameðferð eins og gert var með föllnu bankana. Nægt framboð er af lánsfé á almennum markaði auk þess sem ESA hefur nú þegar úrskurðað að núverandi rekstur sé skýrt samkeppnisbrot á fjármálamarkaði og að endurgreiða þyrfti frekari ríkisaðstoð við sjóðinn.”