Grein þessi eftir Óla Björn Kárason birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. júlí 2012, og má einnig finna á vef Óla www.t24.is:

Í hugum margra stjórnmálamanna er hægt að sinna verkefnum og leysa flest vandamál með því að auka framlög úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Rökin eru sótt í kistu fræðimanna sem mæla velferð þjóðfélaga út frá því hversu stórum hluta landsframleiðslu er varið af hinu opinbera í heilbrigðis- og menntakerfið, í eftirlitsstofnanir og umhverfisvernd, í opinbera stjórnsýslu eða aðra samneyslu. Því stærri hluti sem rennur í gegnum hið opinbera því meiri er velferðin, samkvæmt hugmyndafræði þessara fræðimanna.

Stjórnmálamenn sem hafa tekið ástfóstri við hugmyndirnar hafa ekki sérstakar áhyggjur af því hvernig opinberum fjármunum er varið enda stendur áhugi þeirra til þess að auka útgjöld en ekki draga úr þeim. Kannski er það þess vegna sem þeir sjá ekkert óeðlilegt við að afgreiða fjáraukalög sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Á síðasta ári nam halli á ríkissjóði 89,4 milljörðum króna eða liðlega 52 milljörðum króna hærri fjárhæð en samþykkt fjárlög gerðu ráð fyrir. Liðlega 10 mánuðir voru liðnir af árinu þegar Alþingi afgreiddi fjáraukalög fyrir árið 2011. Þá var reiknað með að hallinn yrði „aðeins” 46,4 milljarðar króna. Aðeins nokkrum vikum fyrir lok ársins var fjármálastjórn ríkisins ekki betri en svo að halli ríkissjóðs var vanmetinn um liðlega 42 milljarða króna.

Fjármálaráðherra lætur eins og ekkert sé eðlilegra en að afgreiða lánsfjárlög vísvitandi með tugmilljarða skekkju. Í viðtali við fréttastofu ríkisins sagði ráðherrann að það hafi verið „samdóma álit manna að setja ekki inn ákveðna upphæð“ þar sem ekki hafi verið vitað hversu hár reikningurinn vegna SpKef yrði. Skattgreiðendur hafa ríka ástæðu til að hafa áhyggjur af fjármálastjórn ríkisins, þegar fjármálaráðherra telur réttlætanlegt að samþykkja fjáraukalög með þeirri vissu að þau séu röng. Hvað kemur í veg fyrir að slíkur ráðherra leggi fram og berjist fyrir samþykkt fjárlagafrumvarps sem byggir á röngum forsendum, feluleik og vanáætlunum, ekki síst á kosningaári?

Reikningur framtíðarinnar

Það er óskiljanlegt hvernig fjármálaráðherra treystir sér til þess að fullyrða að aukinn vaxtakostnaður samfara hækkandi skuldum ríkissjóðs hafi ekki áhrif á fjárlög. Engum fjármálaráðherra hefur áður komið til hugar að halda slíku fram. Á liðnu ári námu lántökur ríkissjóðs nær 160 milljörðum króna umfram afborganir og þar af voru rúmlega 84 milljarðar erlend lán. Ríkisstjórninni hefur því ekki tekist að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs né koma í veg fyrir hækkandi vaxtakostnað á komandi árum (þó fjármagnskostnaði ríkisins sé haldið niðri með gjaldeyrishöftum). Og gatið hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins heldur áfram að stækka. Hækkandi lífeyrisskuldbindingar, aukin skuldasöfnun og hærri vaxtakostnaður, eru ekki annað en reikningur til framtíðar. Sá reikningur verður ekki greiddur nema með hærri sköttum og/eða niðurskurði í opinberri þjónustu.

Gríðarlegur hallarekstur ríkissjóðs eru alvarleg tíðindi fyrir komandi kynslóðir, líkt og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur réttilega haldið fram. Hann hefur bent á að umsvifum ríkisins sé haldið uppi með hallarekstri og það sé gríðarlegt ábyrgðarleysi að bregðast ekki við með því að skera niður í rekstri ríkisins. Þessi ummæli hafa vakið hörð viðbrögð hjá varðmönnum ríkisstjórnarinnar og talsmönnum þess að velferð skuli mæld á stiku ríkisútgjalda sem hlutfall af landsframleiðslu. Slíkir menn vilja ekki horfast í augu við undirliggjandi vanda. Þeir gleðjast miklu fremur yfir því að skattbyrði þeirra sem lægri hafa launin hafi minnkað, – engu skiptir þó bagginn hafi orðið léttari vegna lækkandi launa. Það skiptir ekki máli þar sem skattbyrði hinna hærri launuðu hefur aukist sem þó hefur skilað ríkissjóði lægri skatttekjum. Velferðin er einnig mæld í auknum jöfnuði, þar sem allir eru verr settir en áður.

Fátt kemur í veg fyrir það að ríkisstjórnarflokkarnir afgreiði fjárlög fyrir komandi ár með óskhyggju að leiðarljósi, sjálfsblekkingum og villandi upplýsingum. Þingmenn og ráðherrar sem sjá ekkert athugavert við að samþykkja fjáraukalög, sem þeir vita að eru röng, munu aldrei standast þá freistingu að berja í gegn falleg kosningafjárlög sem eiga sér litla stoð í raunveruleikanum.

Stöðva verður blæðinguna

Að loknum kosningum mun ný ríkisstjórn taka við völdum og hennar bíða mörg og erfið verkefni. Koma verður böndum á ríkisfjármálin og stöðva blæðinguna. Þar eru tvær leiðir. Annars vegar að auka tekjurnar með því að örva atvinnulífið – hleypa nýju súrefni inn í fyrirtækin með lægri sköttum, afnámi gjaldeyrishafta og einfaldara regluverki. Og hins vegar með því að skera niður í rekstri ríkisins samhliða því að endurskipuleggja reksturinn frá grunni.

Stjórnmálamenn hafa axlað þá ábyrgð að skilgreina hlutverk ríkisins á hverjum tíma og marka því verkefni. Þó að of djúpt sé tekið í árinni að halda því fram að þeir hafi ekki staðið undir ábyrgðinni, þar sem vel flestir stjórnmálaflokkar hafa með einum eða öðrum hætti ákveðna stefnu, er engu að síður ljóst að þeir hafa í mörgu litið framhjá stefnunni sem haldið er að kjósendum. Þetta á ekki síst við um þá sem hafa barist gegn auknum umsvifum hins opinbera. Þeir hafa með samningum þurft að gefa eftir í stefnumálum sínum í samstarfi við aðra flokka. Auk þess eru talsmenn takmarkaðra ríkisafskipta oft veikir fyrir þegar kemur að úthlutun fjármuna til kjördæma þeirra eða til eigin hugðarefna.

Vörn fyrir velferðarkerfið

Óhætt er að fullyrða að almenn samstaða sé um það hér á landi að  ríkið haldi ekki aðeins uppi lögum og reglu og tryggi varnir landsins, heldur tryggi einnig að börn og unglingar hljóti almenna góða menntun, sjúklingum sé veitt góð aðhlynning og síðast en ekki síst að þeim sem minna mega sín sé hjálpað til sjálfshjálpar, tryggi að þeir sem ekki geta, hafi til hnífs og skeiðar með mannlegri reisn.

Ágreiningurinn snýr fremur að því hvernig þessum verkefnum er best sinnt. Útgjaldasinnar mega ekki til þess hugsa að róttæk uppstokkun verði gerð á skipulagi ríkisins. Allt tal um hagræðingu og uppskurð ríkisrekstrar er eitur í beinum útgjaldasinna. Þess vegna er farið af hörku í formann Sjálfstæðisflokksins.

Það væri hins vegar fullkomið ábyrgðarleysi af hálfu formanns Sjálfstæðisflokksins að benda ekki á að í óefni stefnir í fjárhag ríkisins. Verði haldið áfram á sömu braut mun velferðarkerfið stöðvast af sjálfu sér. Uppstokkun í ríkisrekstrinum er því varnaraðgerð fyrir velferðarkerfi samtímans um leið og hagsmunir komandi kynslóða eru varðir.