Samtök skattgreiðenda leita áhugasamra samstarfsmanna um land allt. Rík ástæða er til að huga jafnt að umsvifum sveitarfélaga sem ríkisins. Sveitarfélög á landinu er misvel rekin, eins og gengur, en hin síðari ár hefur athygli verið vakin á erfiðri skuldastöðu margra þeirra. Skuldastöðu sem óábyrg fjármálastjórn stjórnmálamanna má um kenna og ónógu aðhaldi skattgreiðenda (kjósenda). Nú blasir einnig við að áfallnar lífeyrisskuldbindingar munu gera mörgum sveitarfélögum erfitt um vik í framtíðinni ef ekki kemur til aukið aðhald í rekstri, auknar skatttekjur (auðvelda leiðin) eða einhliða breytingar á lífeyriskjörum opinberra starfsmanna.

Samtök skattgreiðenda hafa áhuga á að starfa í öllum sveitarfélögum landsins með grasrótarhópum sem skoða rekstur í heimahéraði og koma með ábendingar um hvað betur megi fara.

Á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga má finna greinargóðar upplýsingar um rekstur sveitarfélaganna og góða samanburðartöflu með sundurliðun á rekstri sem tiltekur krónur á íbúa. Sá samanburður er góður til að átta sig á rekstrarútgjöldum til einstakra þátta.

Frekari sundurliðun má síðan fá úr rekstrarreikning viðkomandi sveitarfélags, eða óska frekari upplýsinga á grundvelli upplýsingalaga. Ef þú hefur áhuga á að vinna með Samtökum skattgreiðenda þá skráðu þig á vefnum og sendu okkur jafnframt tölvupóst í netfang uppl@skattgreidendur.is.

Glansmyndir stjórnmálamanna af rekstri eigin sveitarfélags eru sjaldnast sannar. Þeim hættir til að framreiða tölur og upplýsingar þannig að við blasi aðeins betri hliðin.