Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur nú lagt fram sitt fyrsta fjárlagafrumvarp. Þrátt fyrir ýmis jákvæð teikn verður að segjast að frumvarpið veldur vonbrigðum.

Meðal þess sem telja má jákvæða þætti þess er örlítil lækkun milliþreps í tekjuskatti, tilfærslur í stimpilgjöldum sem skattleggur ekki endurfjármögnun, minniháttar lækkun tryggingagjalds og loforð um hagræðingu í stofnanflóru hins opinbera. Og niðurstaða framvarpsins jákvæð í samanburði við síðustu fimm ár, ef það heldur, og á að skila ríkissjóði hallalausum í fyrsta sinni í fjölda ára.

En í frumvarpinu er ekki að finna neina nýja hugsun, enga tilraun til að takmarka sjálfkrafa vöxt hins opinbera. Þannig fær fjöldi stofnana, sem ekki teljast til grunnþjónustu hins opinbera, reiknaðar verðlagshækkanir. Ef ekki er til staðar pólítískur vilji, eða kjarkur, til að skera niður er auðveldasta leiðin til að takmarka vöxt að láta útgjöldin ekki fylgja verðlagshækkunum. Þá veldur það verulegum vonbrigðum að hækka á útvarpsgjaldið, skatt til stofnunar sem er orðin fullkomin tímaskekkja

Fróðlegt væri fyrir almenning að gefa sér eina kvöldstund eða svo til að glugga í frumvarpið, sem er öllum aðgengilegt hér, og sjá hversu víða hið opinbera kemur við og hversu kraftar þess eru dreifðir og margar útréttar hendur sem gera kröfu til þess að geta sótt fé til til skattgreiðenda.