Á mbl.is má sjá í dag frétt sem er gott dæmi um hvernig allri umræðu er snúið á hvolf. Hvernig tungumál Orwells í bókinni 1984 er orðin fyrirmynd í stjórnmálaumræðu. Stríð er friður og ánauð frelsi. Nú heitir frumvarp um hækkun skatta af rafmagni fyrir þorra heimila „Frumvarp um lækkun húshitunarkostnaðar”!

Tilgangur frumvarpsins er að lækka kostnað við húshitun með rafmagni með jöfnunargjaldi sem allir notendur rafmagns munu væntanlega greiða. Þannig á að niðurgreiða kostnað fólks við frjálsa búsetuákvörðun. Að sjálfsögðu er þetta því ákvörðun um aukna almenna skattlagningu sem færa skal fólki sem eins konar verðlaun fyrir búsetu þess. Rétt eins og húshitunarkostnaður sé það eina sem ræður búsetuákvörðun fólks, eða skapi einhvern rétt til þess að krefja aðra um greiðslu kostnaðar af þeirri búsetu.

Og hvernig væri að blaðamenn kölluðu hlutina réttu nafni?

Þá er rétt að benda á að skattur af því tagi sem hér er lagt til að verði settur á (jöfnunargjald) virkar letjandi fyrir sveitarfélög til að leita eigin leiða til að lækka húshitunarkostnað íbúa sinna. Hvers vegna að fjárfesta í borunum, virkjunum o.s.frv. þegar einfaldlega er hægt að láta aðra borga þennan kostnað fyrir sig?