Ásgeir Ingvarsson, blaðamaður, skrifar athyglisverða grein í Viðskiptablað Morgunblaðsins þann 28. júní 2012 og er greinin hér birt í heild sinni með leyfi höfundar:

Á kolröngum stað á Rahn-kúrfunni

Líklega hafa ekki margir lesendur heyrt um Rahn-kúrfuna, en hana mætti kalla systurkúrfu Laffer-kúrfunnar frægu.

Rahn-kúrfan, kennd við bandaríska hagfræðinginn Richard W. Rahn, skoðar útgjöld ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu og á að sýna að ef útgjöld ríkisins eru úr hófi mikil eða of lítil þá komi það hratt niður á landsframleiðslu.

Rahn vill meina að ríkið þurfi að standa straum af ákveðnum lágmarksútgjöldum til að stuðla að sem mestum og bestum vexti hagkerfisins. Ríkið verði að reka ákveðna innviði, s.s. dómstóla og lögreglu, sem leyfa samfélagi og atvinnulífi að dafna.

Þegar útgjöld ríkisins eru mikið minni en 15% eða meiri en 25% af landsframleiðslu þá verður afleiðingin sú að hagvöxtur verður minni en ella. Of lítil útgjöld og nauðsynlega innviði skortir. Of mikil útgjöld og skattheimta og afskipti eru farin að verða myllusteinn um háls fyrirtækjanna og fólksins í landinu svo dregur úr verðmætasköpun.

Töpum miklu til lengri tíma litið

Fjöldamargar rannsóknir styðja þá niðurstöðu Rahns að ákjósanlegasta stærðin á útgjöldum ríkisins sé á bilinu 15-25% af landsframleiðslu.

Ein þeirra er rannsókn James Gwartney og samstarfsmanna frá árinu 1998, sem gerð var fyrir efnahagsnefnd Bandaríkjaþings. Þar voru skoðuð 23 aðildarríki OECD á tímabilinu 1960-96, og hvaða samband var milli ríkisútgjalda og hagvaxtar. Leiðrétt var fyrir ýmsar breytur sem kynnu að hafa áhrif, s.s. menntunarstig, verndun eignarréttarins og fjárfestingu.

Gwartney og félagar fundu það út að fyrir 10% aukningu i ríkisútgjöldum, sem hlutfall af landsframleiðslu, mátti vænta þess að landsframleiðsla minnkaði um u.þ.b. eitt prósentustig.

Í þeim löndum þar sem ríkisútgjöld voru undir 25% af landsframleiðslu var meðalhagvöxtur 6,6% en þegar útgjöldin voru komin upp í 40-49% af landsframleiðslu mátti ekki vænta nema 2,8% hagvaxtar að meðaltali.

Þessar tölur smellpassa við Ísland, þar sem stærð útgjalda hins opinbera hefur verið að meðaltali 42% af landsframleiðslu síðustu tvo áratugina, og meðalhagvöxtur rétt tæplega 2,6% á sama tímabili.

Mikilvægt er að skilja hvað nokkur prósentustig í hagvexti skipta miklu máli til lengri tíma litið: Löndin A og B byrja með sömu landsframleiðslu, A með stöðugan 2,8% hagvöxt en B með stöðugan 6,6% hagvöxt. Land B er, mælt í landsframleiðslu, orðið tvöfalt ríkara að 11 árum liðnum, en íbúar lands A þurfa að biða í 26 ár eftir sömu bót á lífskjörum.

Það sem meira er, að eftir 26 ár er land B orðið meira en 5 sinnum ríkara en í upphafi. Að aðeins 26 árum liðnum er hlutskipti þess fátæka í landi B orðið svipað og hlutskipti þess efnaða í landi A.

Löngu tímabært er að Íslendingar, og stjórnmálamennirnir okkar þó alveg sérstaklega, hugi að því hvort landið sé ekki á kolröngum stað á Rahn-kúrfunni.

Dýrir eru skattarnir í dag, en að 26 árum liðnum geta þeir hafa reynst miklu dýrari en okkur hafði nokkurntíma grunað.