Grein eftir Ragnar Árnason, prófessor, sem birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. apríl 2013:

Í dag, næstum fjórum og hálfu ári, eftir hið mikla áfall í fjármálakerfinu í október 2008, er fjöldi íslenskra heimila enn í alvarlegum skuldavanda. Lánaformum hefur verið kennt um þennan vanda; framan af einkum hinum svokölluðum myntkörfulánum og nú upp á síðkastið verðtryggðum lánum. Þetta eru nærtækar og ekki óeðlilegar skýringar. Fyrir liggur að gengi krónunnar féll verulega á árunum 2008 og 2009 og verðbólgan tók stökk upp á við. Hvort tveggja hlaut að valda umræddum heimilum verulegum búsifjum.

Gengislækkanir og verðbólga eru ekki nýnæmi

Á hinn bóginn má ekki gleyma því að gengislækkanir og verðbólga hafa verið landlæg fyrirbæri á Íslandi áratugum saman. Gengið hefur iðulega fallið meira og verðbólga verið hraðari á árum áður, jafnvel eftir að verðtrygging varð almenn. Eitt af mörgum dæmum um þetta eru árin rétt fyrir og um 1990 en þá var verðbólga miklu meiri en nú og gengið féll þá einnig mjög mikið. Þá kom hins vegar ekki upp svipaður skuldavandi heimila.

Því má ljóst vera að það hljóta að vera aðrir þættir en verð- eða gengistryggingin ein sem valda því að heimilin eiga nú í svona miklum skuldavanda. Augljósar ástæður eru miklar lækkanir annars vegar í ráðstöfunartekjum heimilanna og hins vegar í fasteignaverði. Í þessari grein er því haldið fram að hinar miklu skattahækkanir undanfarin ár eigi verulegan þátt í hvoru tveggja.

Ráðstöfunartekjur heimilanna

Samkvæmt opinberum gögnum Hagstofunnar hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna lækkað mjög verulega frá árinu 2008. Á árinu 2011, hinu nýjasta í gagnaröð Hagstofunnar, var kaupmáttur ráðstöfunartekna hvorki meira né minna en 24% eða næstum fjórðungi minni en hann var á árinu 2007. Á árinu 2012 er líklegt að hann hafi verið um 20% lægri (sjá meðfylgjandi línurit). Þessi lækkun ráðstöfunartekna stafar auðvitað fyrst og fremst af lækkun raunlauna og minnkaðri atvinnu, en hún stafar einnig af aukinni skattheimtu.

Hækkun skatta

Skattar hafa sem kunnugt er verið stórhækkaðir frá árinu 2008. Þessar hækkanir taka til nánast allra opinberra gjalda, allt frá útsvarinu og ýmsum sérstökum gjöldum til sveitarfélaga, til virðisaukaskatts, tekjuskatts og aragrúa sérgjalda sem renna í ríkissjóð. Þessi aukna skattheimta hefur m.a. haft tvennt í för með sér. Í fyrsta lagi hefur hún lækkað þann hluta af tekjum heimilanna sem unnt er að ráðstafa til að greiða vexti og afborganir af lánum. Hins vegar hefur hún dýpkað og framlengt kreppuna.

Hinir hækkuðu skattar koma auðvitað mismunandi niður á heimilunum, ekki síst þegar tekið er tillit til þeirra millifærslna sem hluti þeirra er notaður í. Ekki er fjarri lagi að ætla að þau heimili sem hafa um eða yfir meðaltekjur greiði nú að jafnaði 10% hærri hluta tekna sinna í skatta. Þessir auknu skattar gætu því hæglega samsvarað hálfri til einni milljón króna á ári fyrir þessi heimili að jafnaði. Þá upphæð er með öðrum orðum ekki lengur unnt að nota til að borga af lánum og munar um minna.

Skattar og tekjur heimilanna

Kreppan sem hófst árið 2008 hefur reynst miklu langvinnari en reiknað var með í upphafi. Samkvæmt áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda frá nóvember 2008 hefði henni átt að vera á lokið árið 2012. Á því ári reyndist verg landsframleiðsla hins vegar enn 5,2% minni en hún var 2007 (sjá meðfylgjandi línurit). Jafnframt eru hagvaxtarhorfur á komandi árum nú taldar slakar.

Ástæðan fyrir þessum dapurlega árangri er öðru fremur röð mistaka í efnahagsstjórninni sem ekki var séð fyrir er hinar upphaflegu áætlanir voru gerðar. Ein þessara mistaka eru hinar miklu skattahækkanir. Skattahækkanirnar hafa dregið úr framtaki, fjárfestingum og einkaneyslu sem eru hefðbundnir aflvakar hagvaxtar. Allt þetta hefur verið í sögulegu lágmarki undanfarin ár. Samkvæmt tölum Hagstofunnar er jafnvel vafasamt að þær fjárfestingar sem í hefur verið lagt undanfarin fjögur ár hafi dugað fyrir afskriftum og rýrnun þeirra fjármuna sem til eru. Þá þarf ekki að orðlengja það að framlenging kreppunnar og þar með lítill kaupmáttur og brottflutningur fólks frá landinu hefur þrýst fasteignaverði lengra niður og komið í veg fyrir að það hækkaði með eðlilegum hætti.

Lokaorð

Þannig sjáum við að skattahækkanirnar stuðla að skuldavanda heimilanna með a.m.k. þrennum hætti. Í fyrsta lagi lækka þær beinlínis ráðstöfunartekjur flestra heimila. Í öðru lagi hafa þær framlengt kreppuna og lækkað þannig raunlaun heimilanna umfram það sem að öðrum kosti hefði orðið. Í þriðja lagi hefur framlenging kreppunnar og hið dauðyflislega ástand í hagkerfinu haldið fasteignaverði lengur niðri en efni stóðu til.

Allt hefur þetta bitnað illilega á skuldugum heimilum og aukið á vanda þeirra. Erfitt er að segja til um það hversu sterk þessi skattaáhrif eru. Af ofangreindu er þó fullvíst að þau eru veruleg. Það sorglegasta er að þessi aukni vandi skuldugra heimila sem stafar af skattahækkunum var alger óþarfi. Hann er afleiðing rangrar efnahagsstefnu sem gripið var til af fyrirhyggjuleysi og að því er virðist fyrst og fremst til þess að fullnægja úreltum kreddum. Öll þjóðin borgar brúsann og því miður er hvað minnst borð fyrir báru hjá skuldugum heimilum.