Það er full ástæða til að koma upp sérstöku eftir með eftirlitsstofnunum. Á Eyjunni birtist þetta blogg eftir Skafta Harðarson sem vekur athygli á misbeitingu valds Fjármálaeftirlitsins undir fyrirsögninni Vald spillir og gerræðisvald gerspillir:
“Í bæði Viðskiptablaðinu og viðskiptablaði Morgunblaðsins þann 21. mars 2013 má lesa umfjöllun um mál Ingólfs Guðmundssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verkfræðinga. Fjármálaeftirlitið vék honum úr starfi haustið 2010 og taldi hann vanhæfan.
En í málaferlum sem fylgdu í kjölfarið dæmdi Héraðsdómur Ingólfi í vil, og Hæstiréttur hafnaði áfrýjunarbeiðni FME. Þessu til viðbótar hefur umboðsmaður Alþingis úrskurðað að FME hafi brotið á Ingólfi.
En FME lætur sér ekki segjast og Ingólfur Guðmundsson hefur ekki verið beðinn afsökunar af hendi FME, hvað þá boðnar miskabætur. Ingólfur hyggst nú fara í skaðabótamál við FME.
Mál Ingólfs sýnir að opinberir starfsmenn eru auðvitað hvorki betri né verri en annað fólk, ekki nákvæmari, heiðarlegri eða betri en gengur og gerist. En þá skortir aðhald og sæta engu eftirliti sjálfir. Og vald spillir og gerræðisvald gerspillir eins og Acton lávarður orðaði það. Stofnanir með of mikil völd eru engum til góða. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af þeirri oftrú sem samtíminn hefur af opinberum eftirlitsrekstri, þrátt fyrir að reynslan sýni allt annað. Eftirlitsstofnanir misbeita valdi iðulega og eru tregar til að viðurkenna mistök og reynast á stundum ekki koma að nokkru gagni þegar á reynir og mestu máli skiptir.
Og hver á að sinna eftirliti með eftirlitsmönnunum? Enn einn umboðsmaðurinn?”