Í júlí sl. kom út ársskýrsla Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Í fréttatilkynningu sem fylgdi skýrslunni á sínum tíma koma m.a. fram;

Meðalupphæð námslána fer hækkandi og er mesta fjölgunin í hópi námsmanna sem skulda meira en 12 m.kr. Þá hækkar meðalaldur greiðenda m.a. vegna þess að námsmenn fara í lengra nám og eru eldri þegar námið hefst. Þegar skoðuð eru lán þeirra 20 einstaklinga sem skulda mest og hafa lokið námi og hafið greiðslur, þá er samanlögð skuld 663 milljónir og er núvirði hennar áætlað um 80 milljónir eða um 12%. Hæsta lánið er 47,2 m.kr. Sá fimmtungur lánþega (20%) sem skuldar mest skuldar samtals um 102 milljarða eða tæplega helming af útlánum sjóðsins.

 

LÍN lagði um 7,6 milljarða í afskriftasjóð árið 2014 sem er töluverð hækkun frá árinu 2013 þegar framlagið var 2,8 milljarðar. Þetta er í fyrsta lagi vegna þess að hlutfall gjaldþrota jókst úr 0,15% í 0,30% á milli áranna 2013 og 2014. Í öðru lagi hefur meðalafborgun námslána farið lækkandi. Á móti þessu var hlutfall undanþága frá afborgun lægra en áður eða 4% í stað 5% á árinu áður. Samtals er afskriftarsjóður 41,5 milljarðar og hlutfall hans af heildarútlánum LÍN alls 19,6% í lok árs 2014.

Af þessu má ætla að lánasjóðurinn geri ráð fyrir að tæp 90% lána til þeirra sem mest skulda verði aldrei greidd og beri því nánast að skoða sem styrkveitingu. En þetta hlutfall hjá þeim sem minnst skulda er þveröfugt, þ.e. ætlað er að 90% muni innheimtast og styrkhlutfallið sé því aðeins 10%. Hversu eðlilegt er þetta og hvaða hvata skapar þetta kerfi?

Þá segir einnig;

Núvirt virði útlána LÍN er 38,5 milljörðum lægra en bókfært virði (þ.e. heildarútlán að fjárhæð 213 milljarðar að frádregnum 41, 5 milljörðum afskriftarreikningi), m.v. lok árs 2014. Núvirt virði lánasafnsins LÍN er því 133 milljarðar og endurspeglar munurinn á núvirði og bókfærðu virði þann viðbótarkostnað sem fylgir því að LÍN lánar til námsmanna á lægri vöxtum en vextir á fjármögnun sjóðsins. Þannig bera námslán 1% vexti en meðalávöxtunarkrafa lánsfjármögnunar LÍN var 3,79% á árinu 2014 en var 3,88% á árinu 2013.

Er ekki kominn tími til að breyta fyrirkomulagi námslána og viðurkenna að hluti lánanna eru hreinir styrkir? Eðlilegra væri líklega að styrkja námsmenn að hluta, en færa námslánin til annarra fjármálastofnana. Núverandi styrkir eru fólgnir annars vegar í niðurgreiðslu vaxta og hins vegar í takmörkun á endurgreiðslu að teknu tilliti til tekna. Þannig yrðu hvatar í kerfinu betri og námsval og námstími betur ígrundað á grundvelli mögulegrar umbunar til framtíðar. Umræða um breytt fyrirkomulag er þegar farin af stað og er það vel.

Hér má sjá merkilega tölfræði úr skýrslunni sem sýnir vel hversu langt er hægt að ganga – á mynd 2 sést t.d. að meðalaldur þeirra sem enn eru í námi og skulda mest er 33 – 42 ár og samkvæmt reglum lánasjóðsins eru sáralitlar líkur á að þessi lán fáist endurgreidd nema að litlu leyti.

Mynd 1

Mynd 1

Mynd 2

Mynd 2