Nú virðist ljóst orðið að Menntaskólanum Hraðbraut verður lokað að loknu þessu skólaári. Hér var um að ræða merka tilraun til einkarekstrar á menntaskólastigi. Þar gat saman farið sparnaður nemenda í námi (í árum og tekjutapi) og sparnaður hins opinbera. En meint mistök stjórnenda skólans gáfu andstæðingum nýrra lausna í skólamálum höggstað sem embættis- og stjórnmálamenn nýttu sér til að neita að framlengja þjónustusamning við skólann.
Til grundvallar ákvörðunar Menntamálaráðuneytisins lágu ekki faglegar ástæður, né heldur athugun á kostnaði við skólann fyrir hið opinbera. Var skólinn góð kaup fyrir skattgreiðendur? Og skilaði hann tilætluðum árangri fyrir nemendur sína? Og ef svo var, mátti þá ekki gefa eigendum og stjórnendum skólans tækifæri til að leiðrétta mistök sín?