Loks kom að því að sveitarstjórnarmaður benti á hið augljósa; að kröfur KSÍ til áhorfendaaðstöðu liða í efri deildum knattspyrnunnar eru fásinna Og þess valdandi að skattgreiðendur eru látnir borga fyrir misráðnar og illa nýttar fjárfestingar. Kominn er tími til að vísa þessum kröfum til föðurhúsanna og krefjast þess að annað tveggja gerist; að KSÍ fjármagni framkvæmdirnar, eða að kröfunum verði breytt.
Að byggja yfir áhorfendaaðstöðu þar sem leiknir eru 11 leiknir á ári og að meðaltali innan við 1.000 manns sækja er auðvitað fráleitt. En lið sem komast í efstu deild karla í knattspyrnu búa við þetta skilyrði. Fyrsta deildin sleppur aðeins betur, en litlu þó.
Ef lið nær þeim árangri að komast í efstu deild karla er heimilt að veita því undanþágu á fyrsta ári, og e.t.v. lengur, en fyrr eða síðar mun þurfa að byggja yfir áhorfendasvæðið að kröfu KSÍ. Að sjálfsögðu hafa fá íþróttafélög bolmagn til slíks og því er leitað til sveitarfélagsins. Þrýstingur er á sveitarstjórnarfólk frá aðstandendum íþróttafélagsins. Og enginn sveitarstjórnarmaður vill vera talinn vinna gegn íþróttastarfi. Það er því ástæða til að taka undir þegar formaður bæjarráðs Akureyrar bendir á hið augljósa; að það er fásinna að að verja 100 milljónum í þak á stúku.
KSÍ ber fyrir sig reglur frá UEFA, en jafnvel knattspyrnusamband Evrópu sæi í gegnum fingur sér fyrir 300 þúsund manna þjóð. Og sérstaklega þegar haft er í huga að engin dæmi eru á Íslandi um þaun vandamál sem upphaflega komu af stað ströngum kröfum um gerð um umbúnað knattspyrnuleikja; ofbeldi með áhangenda.