Lagt verður fram frumvarp á yfirstandandi þingi fyrir tilstilli Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, um veðmálastarfsemi á Íslandi. Ætlunin er að koma á fót sérstakri stofnun, Happdrættisstofu, og verður hlutverk hennar m.a. að stemma stigu við fjárhættuspili á netingu, hafa umsjón með leyfisveitingum fyrir happdrættum, sinna eftirliti o.s.frv. Eitthvað sem ætla mætti að tæki eins og 1 – 2 tíma á dag fyrir embættismann í ráðuneytinu. En nú skal sett upp heil „stofa” til að sinna þessu á kostnað neytenda.
Af þessu tilefni skrifaði Arnar Sigurðsson, fjárfestir, grein í Morguinblaðið 13. desember 2012, er ástæða til að birta hana á þessum vettvangi, með leyfi höfundar:
„Oscar Wilde sagði eitt sinn að hann gæti staðist allt nema freistingar. Fyrir stjórnlynda stjórnmálamenn á borð við Ögmund Jónasson er sömuleiðis fátt meira freistandi en gott tækifæri til að stjórna freistingum annarra enda eru stjórnlyndir að öllu jöfnu ófærir um að hafa stjórn á eigin ofstjórnunaráráttu.
Þó að Ögmundur Jónasson sé þekktur fyrir flest annað en aðdáun sína á frelsi einstaklingsins til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um eigið líf, er óhætt að fullyrða að stjórnlyndisæði ráðherrans og ofstækisflokks hans, VG, hafi náð nýjum hæðum með lagafrumvarpi um svokallaða „Happdrættisstofu“ sem líklega væri nær að kenna við stjórnlyndisfíkilinn og kalla Ögmundarstofu.
Fjárhættuspil þar sem veðjað er á móti hugbúnaði sem forritaður er til þess að bera sigur af hólmi má segja að sé ígildi skattlagningar á heimsku. Því má segja að tilvonandi „Happdrættisstofa“ Ögmundar sé tilraun til þess að vinna á heimsku með stjórnvaldi. Eins og frumvarp Ólínu Þorvarðar um niðurgreiðslu á galdralækningum sýnir, er fátt svo heimskt að stjórnlyndir sjái ekki tækifæri til að sólunda almannafé í opinberar „lausnir“, svo dæmi sé tekið af handahófi. Líkurnar á að mælanlegur árangur verði af happdrættisstofu Ögmundar eru reyndar slíkar að líklega væri vænlegra að niðurgreiða heimsku spilafíkla beint þannig að þeir verði ekki fyrir fjárhagstjóni frekar en að ráðast í stofnun og rekstur heillar stofnunar. Hugmyndin að Happdrættisstofu er því heimskari en sú heimska sem henni er ætlað að fyrirbyggja.
Til einföldunar má skipta fjárhættuspili þjóðarinnar í tvennt. Annarsvegar innlenda spilakassa og happdrættismiða sem hver sem er getur keypt, börn jafnt sem fullorðnir, andlega vanheilir sem heilbrigðir. Þá starfsemi telur Ögmundur að „njóti virðingar og sé samfélaginu mikilvæg“. Hinsvegar eru erlendar veðmálasíður sem samkvæmt Ögmundi eru upp til hópa reknar af alþjóðlegum glæpahringjum sem af einhverjum ástæðum takmarka þó aðgang við þá sem hafa greiðslukort og náð hafa 18 ára aldri. Að stöðva hið síðarnefnda er að mati Ögmundar hvorki meira né minna en „brennandi“ málefni og það þó að um 99% þjóðarinnar stundi alls ekki neins konar netspilun. Ögmundur telur erlendar veðmálasíður hina mestu vá en engu að síður „…nauðsynlegt að fólki standi til boða sambærileg spil á vegum trúverðugra íslenskra fyrirtækja“. Engu skiptir þó að íslenskir veðbankar bjóði mun óhagstæðari þjónustu, þ.e. verri stuðla í veðmálum heldur en erlendir keppinautar. Hér er því ámóta virðing borin fyrir hagsmunum neytenda eins og t.d. með innflutningshöftum á landbúnaðarvörum.
Ögmundur ætlar að „koma í veg“ fyrir eitthvað sem hann flokkar sem „ólöglega netspilun á erlendum sem innlendum vefsíðum“. Til að leysa slíkt er Ögmundur trúr rótum sínum og horfir til þess hvernig sósíalísk ríki á borð við Kúbu, Kína og Norður-Kóreu leysa slík mál með ritskoðun á netinu og skorðum við notkun greiðslukorta. Ekki fylgir þó með frumvarpinu ítarleg útflærsla, t.d. um hvernig loka eigi fyrir notkun erlendra greiðslukorta á erlendum síðum, hvernig hægt verði að stöðva notkun íslenskra greiðslukorta ef korthafi ferðast erlendis, hvort tengingar við greiðslumiðlunarkerfi á borð við PayPal, sem aldrei mun beygja sig fyrir meinlokuhugmyndum Ögmundar, verði bannaðar, nú eða hvort úlendingum á Íslandi verði meinaður aðgangur að erlendum síðum sem Ögmundi eru ekki þóknanlegar.
Veruleikafirring Ögmundar er reyndar slík að í greinargerð með frumvarpinu er beinlínis viðurkennt að: „Enginn vafi er á því að greiðslumiðlunarbann telst hindrun á þjónustufrelsi í skilningi Evrópuréttar.“ Að viðurkenna lögbrot í greinargerð með lagafrumvarpi hlýtur að vera nýlunda hér á landi og verðugt rannsóknarverkefni fyrir svokallaða stjórnsýslufræðinga.
Fyrir flest hófsemdarfólk eru veðmál eitthvað sem við viljum sem minnst vita af og allir hafa heyrt reynslusögur af fíklum sem ánetjast slíkri iðju. Því er viðbúið að flestum þyki einfaldlega bara þægilegt að losna við vandamálið með lagaboði. Því er til að svara að sögulega hverfa þjóðir sjaldnast í einni svipan frá frelsi til alræðis heldur er einstaklingsfrelsið étið einn bita í einu, ávallt með göfugum tilgangi hverju sinni. Fjárhættuspil er hinsvegar löstur en ekki glæpur.”